Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Allir markaðir opnast með Bandaríkjunum

Allur markaður Icelandair opnast þegar ferðabanni til Bandaríkjanna verður aflétt. Forstjórinn segir þetta stórt skref og tengistöðin á Keflavíkurflugvelli nýtist þá að fullu í fyrsta sinn í nærri tvö ár. 

Lokað var fyrir ferðir frá Evrópu til Bandaríkjanna að mestu í mars í fyrra. Fyrir helgi var tilkynnt um að 8. nóvember yrði opnað fyrir ferðalög bólusettra til Bandaríkjanna, sem að auki þurfa að sýna fram á neikvætt covid-próf. 

„Þetta er mjög mikilvægt fyrir okkur. Allir okkar markaðir eru þá opnir og okkar leiðakerfi fer þá að fullu í gang,“ segir Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair. 

„Það að fá þetta staðfest núna eykur líkurnar á því verulega að þetta gangi allt saman eftir sem við erum búin að vera að leggja upp með.“

Er þetta eitt af stóru skrefunum í að komast aftur í fyrra horf, eins og var fyrir faraldur?  „Já, það var náttúrulega mjög mikið áfall þegar Bandaríkin lokuðu landamærunum í mars 2020. Að fá allan markaðinn okkar opnaðan aftur, það er ótrúlega mikilvægt og mikilvægt að fá þessa dagsetningu staðfesta sem kom út á föstudaginn,“ segir Bogi Nils.

Eins og staðan er núna verður Icelandair eina flugfélagið í heiminum sem flýgur milli Íslands og Bandaríkjanna í vetur, en Play stefnir síðan á að hefja þangað flug í vor. Áhrifin á rekstur Isavia, sem rekur Keflavíkurflugvöll, eru líka mikil en enn liggur ekki fyrir hvort þessi breyting muni kalla á fjölgun starfsfólks í flugstöðinni. 

„Við teljum að þetta séu mjög stórar fréttir og mjög mikilvægar fyrir okkur hér á Íslandi. Þetta er einn stærsti ferðamannamarkaður í heimi milli Evrópu og Norður- Ameríku,“ segir Guðmundur Daði Rúnarsson framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar hjá Isavia.

„Þetta er gríðarlega efnahagslega mikilvægt, að við komum tengistöðinni á Keflavíkurflugvelli aftur í gang að fullu. Þetta er mjög mikilvægt inn í ferðasumarið 2022, að við teljum.“

Þurfið þið að gera einhverjar ráðstafanir vegna þessa? „Til að byrja með bíðum við mjög spennt eftir að heyra frá flugfélögunum, hvað þau sjá að sé að fara að gerast með farþegafjölda á næstu vikum og mánuðum og við munum svo bregðast við þegar við fáum upplýsingar frá þeim um hvernig þetta mun þróast,“ segir Guðmundur Daði.