Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vonast til að lögreglugögn varpi ljósi á talningarmálið

Mynd með færslu
 Mynd:
Undirbúningsnefnd fyrir rannsókn kjörbréfa hefur nú fengið gögn frá lögreglunni á Vesturlandi sem varða endurtalninguna í Norðvesturkjördæmi. Formaður nefndarinnar vonast til að gögnin varpi ljósi á atburðarásina. 

Karl Gauti Hjaltason, fyrrverandi þingmaður Miðflokksins, kærði framkvæmd talningar í Norðvesturkjördæmi á atkvæðum í alþingiskosningunum 25 . september.  Lögreglan á Vesturlandi lauk rannsókn málsins á þriðjudaginn og það er nú til meðferðar hjá ákærusviði embættisins.

Undirbúningsnefnd fyrir rannsókn kjörbréfa fékk gögnin send seint í gærkvöldi og Birgir Ármannsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður nefndarinnar segir að nú muni þeir níu þingmenn sem sæti eiga í nefndinni fara yfir gögnin.

„Við eigum eftir að fara yfir hvort þetta svarar öllum okkar spurningum, þetta er heilmikill pakki af gögnum sem við þurfum að fara yfir um helgina. Síðan geri ég ráð fyrir að við fundum á mánudagsmorgun og förum þá sameiginlega í gegnum þetta,“ segir Birgir.

Eru þetta þau gögn sem lögreglan á Vesturlandi notaði við rannsókn málsins?
„Þetta eru rannsóknargögn frá lögreglunni.“ Eru þetta upptökur úr eftirlitsmyndavélum á Hótel Borgarnesi?  „Þetta er hitt og þetta. Ég ætla ekkert að fara nánar út í það núna.“

Vonist þið til þess að þetta varpi skýrara ljósi á það sem gerðist? „Þetta hjálpar alveg örugglega. En við hins vegar þurfum að fara yfir þetta til að geta metið það hvort okkur vantar fleiri púsl inn í myndina.“