Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Tesla hefur opnað hraðhleðslustöð á Akureyri

16.10.2021 - 18:12
Mynd með færslu
 Mynd: CC0 - Pixabay
Við Norðurtorg á Akureyri hefur verið tekin í notkun Tesla-hraðhleðslustöð þar sem hægt er að hlaða allt að átta bíla í einu. Stöðvarnar eru sérstaklega hugsaðar fyrir langferðir og breyti því miklu fyrir rafbílaeigendur á ferð um þjóðveginn.

Auðveldar langferðir á rafbíl

Tesla hefur tekið í notkun svokallaðar hraðhleðslustöðvar á nokkrum stöðum á landinu. Nú síðast á Akureyri. Sigurður Friðleifsson, framkvæmdastjóri Orkuseturs, segir að opnun þessara stöðva geri Teslu-eigendum auðveldara að ferðast hringinn í kringum landið.

„Hún breytir náttúrulega mestu fyrir langferðir. Og þetta eru náttúrulega fyrst og fremst stórmunur fyrir gesti sem koma hingað á rafbílum og hafa kannski enga svona heimahöfn til að hlaða yfir nótt,“ segir Sigurður.

Ekki fyrir notkun dagsdaglega

Hraðhleðslustöðvar eru aflfrekari en aðrar hleðslur og þar af leiðandi dýrari í rekstri. „Hraðhleðsustöðvar eru ekki til þess að nota dagsdaglega. Þetta er náttúrulega eðlilega dýrara rafmagn sem er á hraðhleðslustöðvum. Þannig að þetta eru í raun og veru ferðastöðvar fyrir langferðir,“ segir Sigurður.

Áætlað að opna kerfið fyrir aðrar tegundir

Tesla hefur byggt upp mjög stórt kerfi á heimsvísu og hefur það einungis verið ætlað fyrir Teslu-notendur. Það gæti hins vegar farið að breytast.

Sigurður segir að fyrirtækið áætli að opna stöðvar sínar. En þeir hafa hug á að opna stöðvarnar sínar. „Ég held að það gæti jafnvel orðið á næsta ári eða þarnæsta.“