Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Lögðu hald á milljarða virði af heróíni

16.10.2021 - 05:36
epa09524511 The city skyline is seen Melbourne, Victoria, Australia, 15 October 2021. The Victorian government will push on with its plans to reopen the state despite case numbers hitting another national record.  EPA-EFE/JAMES ROSS AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
Melbourne Mynd: EPA-EFE - AAP
Áströlsk lögregluyfirvöld greindu frá því á fréttamannafundi í Melbourne í morgun að toll- og löggæslumenn hefðu lagt hald á stærstu heróínsendingu sem nokkurn tímann hefur fundist í Ástralíu. Meta þeir verðmæti fengsins á um 140 milljónir ástralska dollara, jafnvirði tæplega 14 milljarða króna. Einn malasískur ríkisborgari var handtekinn og ákærður fyrir saknæman innflutning og vörslu á ólöglegu fíkniefni. Ástralskir fjölmiðlar greina frá þessu.

450 kíló af heróíni í gámi með keramíkflísum

Heróínsendingin innihélt 450 kíló af efninu. Hún fannst í vörugámi sem að öðru leyti var fullur af keramikflísum og var sendur frá Malasíu til fyrirtækis í Melbourne. Lögreglan telur að með því að stöðva heróínsendinguna hafi 225 mannslífum verið forðað. Þetta er byggt á því mati sérfræðinga fíkniefnadeildarinnar að rekja megi að meðaltali eitt dauðsfall í Ástralíu til hverra tveggja kílóa af heróini sem flutt eru til landsins. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV