Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Ekki tímabært að lýsa yfir formlegum goslokum

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV
Margt bendir til þess að eldgosinu við Fagradalsfjall sé lokið. Eldvirkni hefur legið niðri í fjórar vikur. Lengri tími þarf þó að líða þar til formlegum goslokum verður lýst yfir. Skjálftahrinu við Keili virðist lokið þó að þensla mælist á miklu dýpi.

Frá því að eldgosið hófst að kvöldið 19. mars hefur ekki komið viðlíka hlé í gosvirknina. Benedikt Ófeigsson jarðeðlisfræðingur hjá Veðurstofunni segir margt benda til þess að eldgosinu við Fagradalsfjall sé að ljúka.

„Þó að maður þori ekki að segja það alveg strax og fullyrða það en það bendir allt til þess að þessu gosi og þessu tímabili sé að ljúka.“ segir Benedikt.

Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur segir í samtali við fréttastofu að þegar goslokum er lýst yfir í eldstöðum sé fyrst og fremst litið til hegðunar þeirra í gegnum söguna, til að mynda í Eyjafjallajökli, Heklu, Surtsey og víðar.

Eldvirkni hætti til að mynda í eldgosinu árið 1980, en um páskana árið 1981 tók hún sig upp að nýju. Það sama gerðist í Eyjafjallajökli árið 1821, og 2010 og einnig í Surtseyjargosinu sem hófst árið 1963 og stóð til 1967 með hléum. 

Sú saga og vitneskja um hegðun þekktra eldstöðva sé hins vegar ekki til staðar við Fagradalsfjall og því þurfi að líða nokkuð langur tími þar til goslokum verður  formlega lýst yfir.  

Í lok september hófst skjálftahrina norðaustan við Fagradalsfjall  í námunda við Keili en undanfarna daga hefur dregið verulega úr henni. Aðeins um 230 skjálftar hafa mælst frá því á fimmtudag, og þar af aðeins einn yfir tveimur að stærð. Vísbendingar eru um örlitla þennslu vegna kviku við Keili, en það er á miklu dýpi.

„Einn af möguleikunum er sá að það séu fyrst og fremst þrýstingsbreytingar vegna kviku sem komu þeirri hrinu af stað, en það var ekki kvika á ferðinni. Við sáum enga aflögun í tengslum við hrynuna sjálfa en það sem við höfum séð og virðumst vera að sjá núna, það er mjög veikt merki og erfitt að sjá það svona snemma í ferlinu, en það gæti verið einhver þensla á miklu dýpi sem veldur þá spennubreytingum. Það gæti verið hluti af því sem er að valda þessari hrinu þarna sem er raunar að ljúka núna.“ segir Benedikt.