Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Vill að leiguverð taki mið af ráðstöfunartekjum

15.10.2021 - 17:51
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, vill að stjórnvöld setji reglur um að húsaleiga megi ekki fara upp fyrir skilgreint hámark af mánaðarlegum ráðstöfunartekjum. Hann segir ríkisstjórnina ekki hafa staðið við mikilvæg atriði í lífskjarasamningnum og að semja þurfi um hærri laun til að mæta auknum húsnæðiskostnaði.

Í nýrri skýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar kemur fram að um tíundi hluti allra leigjenda á landinu verji meira en 70 prósentum ráðstöfunartekna sinna til að borga húsaleigu og ríflega fjórðungur leigjenda þurfi að greiða yfir helming tekna sinna í húsaleigu.

„Staðan er hreint skelfileg eins og gefur að skilja þegar þetta hátt hlutfall af ráðstöfunartekjum fer í húsnæðiskostnað,“ segir Ragnar. „Þegar þessi kostnaðarauki verður hjá einstaklingum - sérstaklega á leigumarkaði - þá gefur auga leið að við í verkalýðshreyfingunni þurfum að semja um hærri laun til að mæta þeim kostnaði,“ segir hann.

Seðlabanki Íslands setti nýlega reglur um hámark greiðslubyrðar fasteignalána. „Við köllum bara eftir því að ef það á að setja einhvers konar kvaðir á hámark af ráðstöfunartekjum sem má fara í húsnæðiskostnað þá skuli það líka vera gert fyrir leigumarkaðinn,“ segir Ragnar.

Hann segir að stjórnvöld hafi algjörlega brugðist þegar kemur að lóðaframboði og að ekki hafi verið staðið við ýmis loforð í lífskjarasamningnum, eins og að endurskoða ákvæði í húsaleigulögum og taka húsnæðisliðinn úr vísitölu neysluverðs.

„Þau hafa ekki staðið við þessi mikilvægu atriði sem að einmitt snúa að húsnæðismálunum sem við reyndum að keyra í gegn og það er dapurlegt að segja frá því að mín upplifun er einmitt sú að stjórnvöld hafi frekar staðið í vegi fyrir að þessi mál væru kláruð vegna þess að þeim var haldið kerfisbundið í gíslingu inn í fjármálaráðuneytinu“ segir Ragnar.