Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Sindraskel nýjasti landneminn á Íslandi

15.10.2021 - 15:55
Mynd: Aðsend mynd: Sindri Gíslason / RÚV
Nýjasti landneminn í lífríki Íslands er hnífsskel sem nefnist sindraskel. Skelin er flugbeitt og ílöng og talið er að hún hafi borist hingað til lands með kjölvatni skipa.

Á gamlársdag fundust nokkrar dauðar hnífskeljar í fjöru í Hvalfirði og skömmu síðar fannst lifandi samloka við ósa Hafnarár í Borgarfirði. Þessar lífverur eru nýir landnemar hér við land, ef undan er skilið þegar samloka af hnífskeljaætt fannst við Lónsfjörð árið 1957. Síðan þá hefur ekkert spurst til slíkra samloka hér á landi. Í norðanverðu Atlantshafi hafa sex tegundir hnífskelja fundist.

Samlokurnar eru langar og mjóar og brúnir þeirra flugbeittar. 

„Þær líkjast helst gamaldags rakhnífum og þaðan er enska heitið „razor clams“ komið. Hnífskeljar geta orðið 20 cm langar, og þykja hnossgæti. Með erfðagreiningu hefur nú verið staðfest að nýi landneminn tilheyrir tegundinni Emsis terranovensis, sem nefnd hefur verið sindraskel, en þeirri tegund hefur nýlega verið lýst í fyrsta sinn og hefur hún aðeins fundist við Nýfundnaland til þessa.“ segir á vef Náttúruminjasafns Íslands.

Höfundar rannsóknar á sindraskeljum leiða líkur að því að þær hafi borist til Íslands með kjölvatni flutningaskipa frá austurströnd Norður-Ameríku, líklega fyrir einum fimm til tíu árum. 

„Nái framandi tegundir að festa sig í sessi á nýjum slóðum geta þær í sumum tilfellum valdið skaða á lífríkinu sem fyrir er. Vöktun sindraskeljar er því mikilvæg.“ segir á vef Náttúruminjasafns Íslands.

Á Líffræðiráðstefnunni sem hófst í gær var sagt frá fundi sindraskeljanna. Rannsókn á þeim er samvinnuverkefni Náttúruminjasafns Íslands, Hafrannsóknarstofnunnar, kanadísku stofnunarinnar Anishinabek/Ontario Fisheries Resource Center, Matís og Náttúrustofu Suðvesturlands. 

Sindri Gíslason, einn af rannsakendum tók meðfylgjandi myndband af landnemanum nýja.