Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Segir ekkert í lögum sem banni endurtalningu

15.10.2021 - 12:52
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Trausti Fannar Valsson, forseti lagadeildar Háskóla Íslands, segist ekki sjá að eitthvað í lögum banni endurtalningu á atkvæðum í þingkosningum. Ragnhildur Helgadóttir, rektor Háskólans í Reykjavík, sagði að á endanum væri það Alþingis að taka ákvörðun. „Og það voru sterk lýðræðisrök fyrir því þegar það ákvæði var sett inn í stjórnarskrá á sínum tíma.“

Þetta var meðal þess sem kom fram á opnum fundi undirbúningsnefndar fyrir rannsókn kjörbréfa, þar sem Trausti Fannar og Ragnhildur voru gestir. 

Eins og Birgir Ármannsson, formaður nefndarinnar, benti á í upphafi fundarins er þessi nefnd í fremur óvenjulegri stöðu. Alla jafna væri hlutverk hennar að skoða ágreiningsatkvæði. „En þær spurningar sem við erum að glíma við núna eru öllu viðameiri og við erum þar að feta inn á nýja slóð.“

Tólf kærur hafa borist frá bæði kjósendum og frambjóðendum vegna kosninganna og spjótin hafa helst beinst að því hvernig staðið var að talningu atkvæða í Norðvesturkjördæmi.  Meðal þess sem hefur verið gagnrýnt er að atkvæðin skyldu hafa verið endurtalin. 

Trausti Fannar sagðist ekki geta séð að eitthvað í lögum bannaði endurtalningu atkvæða. Hann minnti á að ef það væri ekki heimilt að endurtelja væri það öðruvísi annmarki heldur en ef það var endurtalið og ekki rétt staðið að þeirri endurtalningu.

Þetta væri því spurning um að ef lög voru brotin við endurtalningu, hvort þeir annmarkar hefðu verið nægjanlegir og til þess fallnir að hafa áhrif á niðurstöðu kosninga. Eins og ítrekað hefur komið fram í fjölmiðlum duttu fimm frambjóðendur út af þingi við endurtalninguna. 

Trausti benti jafnframt á að hér á landi hefðu ekki verið lögfestar reglur um hvenær stjórnvaldsákvarðanir teldust nógu gallaðar til hægt væri afturkalla þær. Almennt séð yrðu slíkir annmarkar að vera þannig að þeir hefðu áhrif á niðurstöðu máls og ákvörðunar.  

Ragnhildur Helgadóttir sagði að það þyrfti sannarlega að leysa úr málinu og nefndin væri ekki öfundsverð af því. 

Hún minnti samt nefndarmenn á að undirbúningsnefndin og kjörbréfanefndin ynnu fyrir Alþingi þannig að það gæti tekið ákvörðun. Það væri að endingu þingið sem skæri úr um þetta álitaefni. „Og það voru sterk lýðræðisrök fyrir því þegar þetta ákvæði var sett inn í stjórnarskrá á sínum tíma. Til þess að enginn annar væri að eiga við vilja kjósenda.“

Ragnhildur sagði nefndina þurfa að hafa í huga að markmið kosninga væri að vilji kjósenda kæmi fram og að hægt væri að treysta ferlum. En þetta snerist líka um ásýndina.

Ragnhildur taldi að byggja ætti á endurtalningunni, það væri hún sem gilti og skoða ætti hvernig hefði verið staðið að henni.

Ragnhildur sagði þrjú rök fyrir því að tölurnar úr endurtalningunni væru ekki sjálfsagðar og skoða ætti þær nánar. „Fyrst komu aðrar tölur, svo er þetta spurning um vörslu gagnanna og loks aðkoma umboðsmanna framboðanna.“

Hún sagði ljóst að þarna hefðu verið frávik frá reglum og nú væri það nefndarinnar að meta hvort þau væru líkleg til að hafa áhrif á niðurstöðu kosninganna. 

Þar væri hægt að horfa til þess hvort öryggi gagnanna hefði verið tryggt, að kjörseðlar hefðu verið óbreyttir milli fyrri og seinni talningar og íhuga hvað hefði verið hægt að gera með þessi gögn ef þau voru trygg.

Og svo væri það aðkoma umboðsmanna framboðanna og hvort ekki hefði verið hlustað á beiðni þeirra um að beðið yrði með endurtalningu. „Þetta eru þeir þættir sem ég tæki til skoðunar um hvort væru alvarlegir ágallar.“

Ragnhildur rifjaði síðan upp að það væri alveg skýrt kveðið á um það í kosningalögum að ef talning væri gölluð ætti að hafa uppkosningu. „Ekkert okkar er ofboðslega spennt fyrir því,“ sagði hún. Því ólíkt sveitastjórnarkosningum myndi slík kosning hafa áhrif um allt land og þeir sem kysu í henni gerðu það á allt öðrum forsendum. „En það er bara sú leið sem kosningalögin teikna upp.“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV