Sambandsslitin voru „ofboðslega erfiður tími“

Mynd: RÚV / RÚV

Sambandsslitin voru „ofboðslega erfiður tími“

15.10.2021 - 12:41

Höfundar

Poppstjarnan Friðrik Dór og Lísa eiginkona hans hættu eitt sinn saman á erfiðu tímabili í lífi popparans. Söngvarinn fjallar um það í nýju lagi sem nefnist Segðu mér. „Er ég aldrei að fara að koma hingað aftur?“ spurði hann sjálfan sig þegar hann heimsótti hana um nótt, í það sem hann óttaðist að væri í síðasta skipti.

Friðrik Dór Jónsson, ein stærsta poppstjarna landsins, og eiginkona hans Lísa Hafliðadóttir eiga tvær dætur. Hjónin hafa verið saman um hríð og eru samheldin, en hafa þurft að yfirstíga hindranir. Friðrik segir frá því í nýju lagi sem heitir Segðu mér sem hann flutti í þættinum Tónatali á RÚV í gær. Lagið er píanóballaða sem hann samdi með Pálma Ragnari Ásgeirssyni. Friðrik segir sjálfur að lagið fjalli um tilfinningu sem er erfið en hann þekki sjálfur.

Mynd: RÚV / RÚV
Hér má sjá tilfinningaþrunginn flutning Friðriks á laginu Segðu mér.

„Þú ert að koma inn í aðstæður sem þú þekkir vel en það hefur orðið einhver smávægileg breyting sem veldur því að þú kemur inn, en samt er allt breytt,“ segir hann um sögusviðið. „Þetta er byggt á því þegar ég og Lísa, sem mætti allt of seint í þennan sjónvarpsþátt en á hárréttum tíma inn í líf mitt, við hættum saman á tímabili,“ rifjar hann upp. „Ofboðslega erfiður tími.“

Seint um nótt fór hann heim til Lísu án þess að láta hana vita að hann væri á leiðinni. Hann gleymir þeirri heimsókn seint. „Ég man eftir þessari upplifun. Þú ert búinn að vera einhvers staðar og þetta er svona hálfgert heimili þitt og þú verður svona óviss: Er ég aldrei að fara að koma hingað aftur? Allt blasir öðruvísi við þér.“

Friðrik og Lísa fundu hvort annað sannarlega aftur en textinn fjallar um þessa örlagaríku næturheimsókn.

Matthías Már Magnússon ræddi við Friðrik Dór í Tónatali á RÚV. Hér er hægt að horfa á þáttinn í heild sinni í spilara RÚV.

Tengdar fréttir

Popptónlist

Friðrik Dór á fjalirnar í Gamla bíói