Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Hefðu átt að hringja fyrr á björgunarsveitir

15.10.2021 - 19:10
Rekstrarstjóri Mountaineers segir að tímastjórnun og mat á færð hafi ekki verið sem skyldi þegar 39 ferðamenn lentu í hrakningum við Langjökul í janúar í fyrra. Hann fór yfir atvikið á ráðstefnu Landsbjargar sem haldin var í dag.

Haukur Herbertsson byrjaði á að lýsa því hvernig hann hafi fengið hnút í magann þegar hann var beðinn um að flytja þetta erindi. En sleðaferð, fjögurra leiðsögumanna og 39 ferðamanna, í íshelli upp á Langjökul þann 7. janúar 2020 fór öðruvísi en áætlað var. Ætlunin var að koma með hópinn til baka rétt um klukkutíma áður en veður myndi versna eins og gul viðvörun Veðurstofunnar sagði til um. Tveir starfsmenn fengu réttarstöðu grunaðs vegna málsins en málið hefur verið fellt niður.

„Tímastjórnun var ekki í lagi hjá okkur þannig að mögulega hefðum við átt að grípa inn í fyrr, þegar ljóst var að að ferðin inn í hellinn tæki lengri tíma en áætlað var,“ segir Haukur Herbertsson, rekstrarstjóri Mountaineers of Iceland.

Aðspurður hvort hringja hefði átt fyrr á björgunarsveitir svarar Haukur. „Aftur þá er þetta mjög erfið spurning. Horfandi í baksýnisspegillinn og vitandi allt sem ég veit í dag að þá get ég sagt já, ég hefði átt að hringja fyrr á björgunarsveit.“

Haukur segir að á þeim tíma hafi þau talið að þær viðbragðsáætlanir sem fyrirtækið virkjaði myndu duga. Hins vegar hafi snjótroðari og jeppi bilað og þegar þeim varð ljóst að áætlanirnar myndu ekki duga hafi verið hringt í 112. Hann telur gula viðvörum hafa sama vægi og áður.

„Það hefur ekki meira eða minna vægi eftir þetta atvik enda var það ekki veðrið sem stöðvaði ferðina. Heldur? Færðin.“