Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Erfitt að eiga við eldfjalladólgana

Mynd: Þyrluþjónusta Helo / Helo
Erfitt hefur reynst að stöðva svokallaða eldfjallaníðinga, eða eldfjalladólga, við gosstöðvarnar á Reykjanesskaga. Dólgarnir eru þeir sem ganga alla leið í bókstaflegri merkingu, virða engar reglur eða merkta stíga og fara sjálfum sér og öðrum að voða.

Jónas Guðmundsson verkefnastjóri í slysavörnum hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu fjallaði um stýringu á ferðamönnum á ráðstefnunni Slysavarnir 2021 í dag.  Hann segir langflesta ferðalanga við gosstöðvarnar fara eftir leiðbeiningum. 

Ganga alla leið

„En svo erum við alltaf með ákveðna einstaklinga. Og þeir eru í fræðunum kallaðir "volcanophiles" - eins og "pedophiles". Þeir eru að koma til þess að fara alla leið, ganga upp á gíginn, labba á hrauninu og láta taka af sér myndir" segir Jónas.

„Við sjáum það líka í ferðamálafræðunum að aukningin á eldfjallatúristum skapast að hluta til vegna meiri notkunar á farsíma. Það er meiri pressa á að við tökum af okkur myndir í aðstæðum sem líta vel út á samfélagsmiðlum. Þetta vinnur á móti okkur en við getum ekkert gert við þessum litla hópi sem vill ganga alla leið". 

Hægt að handtaka og sekta

Eru þá engin ráð gegn dólgunum?  
„Það er erfitt. En við verðum að vinna gegn þeim. Jú við getum verið með skilti, við getum verið með lokanir. Við getum hreinlega handtekið fólk og látið fréttast að það sé sektað. Það hefur einhver áhrif" segir Jónas Guðmundsson hjá Landsbjörgu. 

Nánar er rætt við Jónas Guðmundsson í Speglinum. Hægt er að hluta á viðtalið í spilaranum hér að ofan.