„Ég kom heim breyttur maður“

Mynd: RÚV / RÚV

„Ég kom heim breyttur maður“

15.10.2021 - 09:11

Höfundar

„Ég var með kökkinn í hálsinum þegar ég yfirgaf þessa konu,“ segir hringfarinn Kristján Gíslason sem ferðaðist um heiminn á mótorhjóli. Hann hefur skrásett ferðalög sín og sent frá sér bækur og heimildarmynd um reynsluna sem gjörbreytti honum sem manneskju. Þakklæti og auðmýkt eru honum efst í huga þegar hann lítur yfir farinn veg.

Margir muna eftir sjónvarpsþáttunum um Hringfarann, Kristján Gíslason, sem tók sig til og ferðaðist í kringum heiminn á mótorhjóli og lenti í alls kyns ævintýrum. Hann var hvergi nærri hættur þegar þeim leiðangri lauk og hjólaði víða um heim með konu sinni, en lagði svo einn upp í leiðangur um Afríku 2019. Það ævintýri hefur hann skrásett í bókinni Andlit Afríku, sem er full af mannlífsmyndum og sögum af enn einni ævintýraförinni. Kristján sagði frá bókinni og ferðalögum sínum í Morgunútvarpinu á Rás 2 þar sem hann viðurkennir að hafa ekki verið orðinn eins vanur mótorhjólakappi og hyggilegt hefði verið, þegar hann lagði af stað.

Langaði að eiga ævintýraár áður en hann yrði gamall

„Ég hef margoft verið spurður hvað maður á mínum aldri er að gera að fara á mótorhjóli,“ segir Kristján og bætir við að það séu eflaust margar skýringar á því. Árið 2013 stóð hann  á tímamótum, hafði selt fyrirtækið sitt og hafði engar starfsskyldur. Þá fékk hann hugmynd. „Mig langaði að eiga ævintýraár áður en ég yrði of gamall,“ segir hann. Hugljómunina fékk hann þegar hann las ljóð eftir argentínska ljóðskáldið Jorge Luis Borges sem fjallar um 85 ára gamlan mann. Maðurinn lýsir því í ljóðinu hvernig hann sá eftir að gera ekki ákveðna hluti og hvetur aðra til að leggja upp í för og njóta lífsins. Kristján tók það til sín og fékk sér mótorhjól.

Ákveðin fífldirfska að fara einn á mótorhjóli með litla reynslu

Upphaflega stóð til að Kristján ferðaðist með vini sínum en sá hætti við á síðustu stundu. „Ég stóð frammi fyrir því að fara einn eða sleppa þessu. Ég hafði kynnst mótorhjólinu aðeins ári áður en ég tók ákvörðunina um að fara þessa ferð,“ segir Kristján sem var orðinn 56 ára þegar hann settist í fyrsta skipti á slíkt hjól. „Ég viðurkenni að það var ákveðin fífldirfska að fara einn á mótorhjóli með ekki meiri reynslu. Ég ráðlegg engum að gera það en sem betur fer kem ég heim heill eftir þetta og kem heim breyttur maður,“ segir hann og kveðst þakklátur fyrir að hafa fengið að upplifa, eins og hann orðar það: „ár lífs míns“.

Kom heim mýkri maður og naglinn var á bak og burt

Eiginkona Kristjáns, Ásdís Rósa Baldursdóttir, segir að hann hafi breyst eftir ferðalagið og orðið mýkri. „Það vantaði þennan harða nagla sem áður var. Það eru góð býtti,“ segir hann. „Þegar þú ferð svona einn á mótorhjóli um heiminn og hjólar 48 þúsund kílómetra þá segir sig sjálft að þú ert svo mikið einn með sjálfum þér, það breytist eitthvað innra með þér.“ Og það sem ferðalagið skildi eftir sig var auðmýkt og þakklæti. „Þakklæti fyrir lífið, ekki bara fyrir að hafa fengið tækifæri til að kynnast heiminum með þessum hætti heldur þakklæti fyrir að hafa fengið að lifa þessa örskotstundu í þessu samhengi og eiga allt heima, fjölskyldu og vini, og ekki síst bara að vera Íslendingur.“

Erfið lífsreynsla sérstaklega eftir á

Kristján segir það alveg skýrt í sínum bókum að Afríka sé stórbrotnasta heimsálfan. Eftir ferðalag með Ásdísi frá Moskvu til Jórdaníu fór hún heim en hann hélt för sinni áfram og heimsótti Egyptaland og Súdan. „Ég var búinn að kynna mér allt vel áður en ég fer, en lengi í uppákomum sem ég hef aldrei áður lent í bæði í Súdan og í Eþíópíu þar sem var algjört upplausnarástand. Þar var stjórnarbylting og hershöfðingjar myrtir og hvað eina. Ég læsist inni í Súdan og það var mér erfið lífsreynsla, sérstaklega eftir á þegar ég áttaði mig á því að ég væri í hættu, ekki vegna stríðsástandsins sem slíks heldur vegna þess að ég var að ferðast um eyðimörkina frá Egyptalandi til Súdan,“ rifjar Kristján upp. „Það var ekki bíll á leiðinni og ég að fara í fimmtíu stiga hita.“

Hægeldaður eins og lamb

Hitinn segir Kristján að hafi bókstaflega verið óbærilegur og vökvaskorturinn olli honum mikilli vanlíðan. „Mér skilst að lamb sé hægeldað í fimmtíu gráðum. Mér fannst ég vera að elda mig,“ segir hann um tilfinninguna. „Og það sem ég áttaði mig ekki á var hversu mikið ég þornaði upp. Ég átti erfitt með andardrátt og um nóttina festist tungan bara í gómnum. Ég þurfti að vökva mig til að losa um tunguna. Líkami okkar Íslendinga er ekki byggður fyrir svona mikinn hita.“

Hefði átt að fá sér drulluvatnið

Fljótlega áttaði hann sig á því að hann væri með of litlar vatnsbirgðir og það var staðreynd sem erfitt var að kyngja. „Ég er kerfisfræðingur og vil hafa borð fyrir báru,“ bætir hann við. Vatnið sem honum bauðst í Súdan leist honum nefnilega illa á. „Það var bara drulluvatn, þetta er bara það sem þeir eru vanir, en ég hugsaði með mér: Ég get ekki sett þetta á vatnstankinn minn. Ég hefði sannarlega átt að gera það.“

Með kökkinn í hálsinum eftir heimsóknina

Árið 2020 héldu hjónin í ferðalag í hring í kringum Ísland. „Það voru einhverjir átta þúsund kílómetrar sem við konan fórum á tveimur mánuðum. Það var stórkostleg ferð, að ferðast um Ísland með þessum hætti á þessum tíma,“ segir Kristján. Á stefnuskránni er að ferðast um Norðurlöndin en líka Suður Ameríku.

Víða þar sem Kristján drap niður fæti á ferðalögum sínum var fólkið mjög bágstatt, en það sem stendur upp úr er ferð til Kíbera sem er fátækrahverfi í Naíróbí í Kenía. Yfir milljón manns búa þar og var Kristjáni boðið heim til konu sem hýsti níu afkomendur. „Hún var 65 ára gömul með níu börn, barnabörn og barnabarnabörn. Foreldrarnir höfðu ýmist látist eða látið sig hverfa,“ rifjar Kristján upp. „Ég var með kökkinn í hálsinum þegar ég yfirgaf þessa konu. Hún bjó í bárujárnsskúr sem var um fimmtán fermetrar, leirgólf, hriplekt allt.“ Kristján tók eftirminnilega mynd af íbúum og aðstæðum, man sérstaklega hvernig þau brostu.

Mesta gleðin í fátækustu héruðum þessa heims

„Það var ótrúlegt, eins og ég hef sagt áður líka, þú finnur fegurðina á þessum stöðum. Það er svo merkilegt að ég hef farið víða og þar sem ég finn fyrir mestri gleði, ég get kannski ekki sagt hamingju, en gleðina finn ég mesta hjá þeim sem búa í fátækustu héruðum þessa heims.“

Á þessum stöðum búi fólk gjarnan mjög þétt, mamman og pabbinn, foreldrar þeirra; amman og afinn. „Svo er það nærumhverfið, vinir og vandamenn í sama hverfinu. Það er svo mikil samheldni og samhugur,“ segir Kristján. „Ég kem líka inn í annað hverfi sveitarinnar í Kenýa og þar er fólkið alls ekki fátækt en það heldur í hefðir að búa saman. Ég held það sé stór hluti af raunverulegri hamingju.“

Allur ágóði rennur í góðgerðastarf

Í bókinni Andlit Afríku eru myndir, myndatextar, ferðasögur en líka QR-kóðar sem hægt er að opna í síma. Þá er hægt að sjá myndskeið og heyra hljóðin til að dýpka enn betur tilfinninguna fyrir því sem fyrir augu ber. „Þeir sem hafa skoðað þetta hingað til hafa gefið mér góða umsögn. Þarna er ég að samtvinna tæknina,“ segir Kristján. Allur ágóði af sölu bókarinnar og sýningarrétti heimildarmyndarinnar rennur í styrktarsjóð Hringfarans. Um þessar mundir styrkir sjóðurinn forvarnarverkefni um eiturlyfjaneyslu íslenskra ungmenna.

Rætt var við Kristján Gíslason í Morgunútvarpinu á Rás 2.

 

Tengdar fréttir

Menningarefni

„Ég var að kveðja þetta tímabil í lífi mínu“

Leiklist

„Vildi fara af þessari eyju eins langt og ég gæti“