Bróðurkærleikurinn er í fyrirrúmi

Mynd: Karl Sigtryggsson / RÚV/Landinn

Bróðurkærleikurinn er í fyrirrúmi

15.10.2021 - 07:50

Höfundar

Karlakór Kjalnesinga heldur upp á 30 ára afmæli á þessu ári og fagnar tímamótunum með afmælistónleikum í Hallgrímskirkju 6. nóvember. Sérstakur gestur er ein skærasta stjarnan í íslenskri tónlist, söngkonan Bríet. Á efnisskránni verða kraftmikil karlakórslög í bland við fallegar perlur. Til að búa sig sem best undir tónleikana héldu karlarnir æfingu í hellinum Víðgelmi í Hallmundarhrauni.

„Okkur fannst tilhlýðilegt að taka æfingu hérna í besta tónleikasal landsins ef ekki í öllum heiminum. Við höfum sungið hér áður fyrir túrista og í hellinum er gríðarlega flottur hljómur. Þess vegna er tilvalið að undirbúa okkur fyrir afmælistónleikana hérna í Víðgelmi,“ segir segir Guðni Halldórsson kórfélagi í karlakór Kjalnesinga.

Þennan fallega haustdag í byrjun október mættu rúmlega 50 karlar á æfinguna og þeir biðu spenntir eftir að fá að þenja raddböndin. Jóhannes Baldursson hefur verið formaður kórsins undanfarin 5 ár og lætur sig ekki muna um að keyra frá Njarðvík á kóræfingar.

„Ég er búinn að vera í kórnum í rúm 20 ár. Þetta verður partur af lífinu og mér finnst ég missa af einhverju ef maður mætir ekki til að syngja með félögunum. Við erum góðir vinir og félagar og hittumst oft utan æfinga. Við förum saman í útilegu, á jólahlaðborð, þorrablót, á kótelettukvöld. Þetta er svona eins og saumaklúbbur. Þegar við förum í útilegur þá syngjum við fram á rauða nótt og þá er stundum hringt í lögregluna til að stoppa sönginn,“ segir Jóhannes formaður.

„Þetta er æðislegur félagsskapur. Ég hef unnið með mörgum kórum en aldrei fundið jafn góðan kóranda. Þetta er góður hópur og hér eru allir vinir. Það kemur ýmislegt upp á en það er bara leyst fallega,“ segir Þórður Sigurðarson kórstjóri. „Bróðurkærleikurinn er algjörlega í fyrirrúmi.“ 

Guðmundur Guðlaugsson er búinn að vera lengi í kórnum og hann kann margar skemmtilegar sögur. „Páll Helgason var okkar fyrsti kórstjóri í 20 ár. Honum fylgdi mikil gleði og við fórum til dæmis til Kanada 1999 og vorum á Íslendingadeginum. Það er fræg saga af því þegar Palli lét okkur syngja Ísland ögrum skorið á meðan fjallkonan gekk eftir rauða dreglinum. Palli hafði fengið þær upplýsingar að hún færi hægt yfir og við áttum að syngja þar til hún hefði fengið sér sæti. Fjallkonan fór hraðar yfir en kórstjórinn hélt og þegar við höfðum sungið Ísland ögrum skorið tvisvar sinnum þá var hún komin í sætið. Palli tók ekki eftir þessu og lét okkur syngja Ísland ögrum skorið 9 sinnum og þótti víst mörgum nóg um.. Þá orti ég þessa limru:

Fátt hefur fyrir oss borið 
síðan fjallkonan greikkaði sporið.
En hún varð samt að vita
í þessum voðalega hita 
að Ísland er ögrum skorið.