Zúistabræður fá ekki gögn sem voru kveikjan að rannsókn

14.10.2021 - 13:44
Mynd með færslu
Annar bræðranna sem var til umfjöllunar í Kastljósi í tengslum við fjáröflun á Kickstarter hefur verið ákærður fyrir umfangsmikil fjársvik. Mynd: RÚV - Kastljós
Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur sem hafnaði beiðni bræðranna Ágústs Arnars Ágústssonar og Einars Ágústssonar um að fá afhent gögn frá embætti héraðssaksóknara. Þetta var annars vegar erindi til héraðssaksóknara frá skrifstofu fjármálagreiningar lögreglu eða SFL og hins vegar tilkynningin sem erindið byggði á. Skjalið frá SFL varð kveikjan að rannsókn héraðssaksóknara á hugsanlegum brotum bræðranna í tengslum við trúfélag Zúista.

Bræðurnir eru ákærðir fyrir fjársvik í tengslum við rekstur Zúista-trúfélagsins.

Þeir eru sagðir hafa styrkt og hagnýtt sér þá röngu hugmynd starfsmanna íslenskra stjórnvalda að trúfélagið uppfyllti skilyrði fyrir skráningu trúfélags. Ákæran var þingfest 14. desember og reiknað er með að aðalmeðferð hefjist í næsta mánuði.

Verjandi bræðranna krafðist þess að héraðssaksóknari afhenti annars vegar erindi frá skrifstofu fjármálagreiningar lögreglu eða SFL og hins vegar tilkynninguna sem það erindi byggði á.  Erindið frá SFL varð kveikjan að rannsókn héraðssaksóknara á meintum brotum bræðranna.

Í úrskurði héraðsdóms um kröfuna er rakið hvað kom fram í þessu erindi. Það byggði á tilkynningu um hugsanlegt peningaþvætti og var sent til embætti héraðssaksóknara í byrjun desember fyrir þremur árum.  SFL hafði bræðurna grunaða um að þvætta ágóða sem yrði til vegna meintrar brotastarfsemi í trúfélagi Zúista.

Trúfélagið hafði fengið greiddar 81,2 milljónir í uppsöfnuð trúfélagsgjöld inn á bankareikning sinn og taldi SFL að þeim fjármunum hefði að mestu leyti verið ráðstafað inn á erlenda bankareikninga og á reikning erlends félags.  Grunur léki á að bræðurnir hefðu nýtt bróðurpart upphæðarinnar frá ríkissjóði í eigin þágu.

Verjandi bræðranna taldi að þeir ættu rétt á því að fá þessi gögn og benti á í kröfu sinni að skrifstofa SFL væri á sama gangi og héraðssaksóknari. Lét hann að því liggja að tilkynningin frá SFL væri í raun komin frá héraðssaksóknara sjálfum og því verið fyrirsláttur til að geta hafið rannsókn.

Saksóknari hafnaði því að „einhver leiktjöld eða reykur“ hefðu verið búin til um hvernig rannsóknin hófst. Ekki væri venja í sakamálum að halda því fram að upplýsingaskýrslur handhafa opinbers valds væru tilbúningur.  Undir það tók héraðsdómur í úrskurði sínum og taldi þessa athugasemd verjandans óviðeigandi. 

Í ákæru á hendur bræðrunum segir saksóknari að blekkingar bræðranna hafi meðal annars lotið að því að innan trúfélagsins Zúism væri lögð stund á átrúnað eða trú í virkri og stöðugri starfsemi.

Sannleikurinn væri sá að engin eiginleg trúariðkun eða tengd starfsemi hefði farið fram. Engu að síður hefðu bræðurnir blekkt starfsmenn sýslumannsins á Norðurlandi og Fjársýslu ríkisins um að Zúista uppfylltu skilyrði fyrir skráningu sem trúfélag og ættu því rétt á sóknargjöldum. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV