Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vöruverð fryst til að spyrna við verðbólgu

epa09523741 Demonstrators protest against the Argentine government by playing instruments and cutting off the main access roads to the city, in Buenos Aires, Argentina, 14 October 2021. Several Argentine social organizations make cut off the main access roads to Buenos Aires to demand more work and the delivery of more food to the soup kitchens in the midst of the crisis that drags the country, and just one month before national legislative elections are to be held.  EPA-EFE/Juan Ignacio Roncoroni
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Argentísk stjórnvöld hafa komist að samkomulagi við fjölda einkafyrirtækja um að frysta vöruverð í nokkra mánuði til að draga úr verðbólgu í landinu. Fátækt er mikil og verðbólga hefur geisað í tvo áratugi.

Hagstofa Argentínu greinir frá því að verðbólgan á yfirstandandi ári nemi um 37 af hundraði en sé 52,5% á tólf mánaða tímabili. Það er einhver mesta verðbólga í veröldinni og slíkt ástand hafa Argentínumenn búið við um tveggja áratuga skeið.

Um 40% landsmanna búa við fátækt en kórónuveirufaraldurinn dýpkaði kreppuna í landinu. Roberto Feletti, ráðherra innanríkisviðskipta, segir samkomulag hafa náðst við einkafyrirtæki um að frysta verð á 1.247 vörutegundum, einkum matvöru og hreinlætisvörum.

Í samtali við þarlenda útvarpsstöð sagði Feletti brýnt að hægja á verðbólgunni og hvetja almenning til að auka neyslu. Hann segir viðbrögð fyrirtækja hafa verið jákvæð en miðað verður við verð eins og það var 1. október og látið gilda óbreytt til 7. janúar.

Ákvörðunin var tekin í kjölfar mikilla mótmæla í landinu þar sem þess var krafist að framleiðslustyrkir í matvælaiðnaði yrðu hækkaðir og brugðist við fátækt.

Þá ákvað ríkisstjórnin að lágmarkslaun skyldu hækkuð um sextán af hundraði og bætti í fjárhagsstyrki sem gagnast munu tveimur milljónum Argentínumanna.