Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vill kynjakvóta í framkvæmdastjórnir líka

Forstjóri álversins í Straumsvík vill að kynjakvóti í framkvæmdastjórnir fyrirtækja verði lögfestur líkt er um stjórnir þeirra. Þetta kom fram á ráðstefnu Félags kvenna í atvinnulífinu þar sem viðurkenningar Jafnvægisvogarinnar voru afhentar

Ráðstefnan, undir heitinu „Jafnrétti er ákvörðun“, var haldin í sjónvarpssal og send út beint á ruv.is. Þótt skylt sé að hafa hlutfall kvenna og karla í stjórnum, 40 60, þá eru nú 26 og hálft prósent eða aðeins rúmur fjórðungur stjórnarmanna konur. Rannveig Rist forstjóri álversins í Straumsvík segir að það sé ekki nóg: 

„Mér fyndist til þess að koma jafnréttinu betur á þá þyrftum við að hafa kynjahlutföllin jöfn í framkvæmdastjórnum. Og það stafar af því að framkvæmdastjórnir eru þeir aðilar sem sjá um ráðningar starfsfólks inn í fyrirtækin og sjá um framgöngu starfsmanna en ekki stjórnir,“ segir Rannveig.

Eru þá karlar að ráða frekar karla?

„Já, ég held að það sé bara með okkur öll að við erum líklegri til að ráða þann sem er líkur okkur sjálfum. Og ég held að fólk fari inn í ráðningarviðtöl með ákveðið hjálpartæki. Þú ert með spegil sem þú getur speglað þig í. “

Þótt álverið sé frábær vinnustaður fyrir konur, segir Rannveig, þá vantar umsóknir frá þeim en hindranir eru sérstaklega miklar varðandi vaktavinnu: 

„Ég bara spyr hvers vegna eru leikskólar ekki opnir allan sólarhringinn. Þeir eru bara miðaðir við skrifstofutíma.“

Það sé kannski ein skýring þess að Landspítalanum gangi illa að ráða starfsfólk. 

Í framkvæmdastjórn Deloitte á Íslandi er meirihlutinn konur en samkvæmt Deloitte ytra þá eru ýmsar, sem einhverjir myndu telja lítilvægar, ástæður fyrir því að konur hætta, eins og það sem einhverjir myndu halda að væri góðlátlegt grín. Sunna Dóra Einarsdóttir sviðsstjóri og meðeigandi Deloitte flutti erindi á ráðstefnunni.

„Og eins og þessi fundarmenning að hafa fundi klukkan átta, það gerir oft fjölskyldufólki erfitt fyrir að koma allri fjölskyldunni á sinn stað sérstaklega ef það eru ekki tveir bílar á heimili. Og það eru alls konar svona litlir hlutir og svo auðvitað fyrirmyndirnar. Það skiptir örugglega bara miklu máli að við séum með fyrirmyndir í stjórnendahóp sem endurspegla jöfn tækifæri.“

Og einn félagi í Félagi kvenna í atvinnulífinu, Eliza Reid forsetafrú, afhenti viðurkenningar jafnvægisvogarinnar til fimmtán kvenna víðs vegar að úr atvinnulífinu. 

 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Þór Ægisson - RÚV
Sunna Dóra Einarsdóttir
Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV