Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Viðurkennir að hafa framið drápin í Kongsberg

14.10.2021 - 06:42
Mynd með færslu
 Mynd: Cicilie S. Andersen - NRK
37 ára gamall karlmaður sem kærður var fyrir að hafa drepið fimm og sært tvo til viðbótar í bænum Kongsberg í Noregi í gær hefur játað á sig verknaðinn. Frá þessu er greint á vef sjónvarpsstöðvarinnar TV2. „Að hve miklu leyti hann viðurkennir sekt í þessu máli vitum við hins vegar ekki enn,“ segir Ann Irén Svane Mathiassen, saksóknari. Hún segir lögreglu áður hafa haft afskipti af sakborningnum. Hann er danskur ríkisborgari sem óx upp í Noregi og hefur verið búsettur í Kongsberg um árabil.

Samstarfsfús og ræðinn

Maðurinn verður leiddur fyrir dómara í dag, þar sem farið verður fram á gæsluvarðhald yfir honum. Hann var yfirheyrður í nótt og norskir fjölmiðlar hafa eftir skipuðum verjanda hans að hann hafi verið samstarfsfús og svarað öllum spurningum lögreglu greiðlega og ítarlega. 

Fimm liggja í valnum og tveir liggja sárir á gjörgæslu eftir að ódæðismaðurinn gekk um Kongsberg með boga og örvar að vopni á sjöunda tímanum í gærkvöld og skaut á fólk á mörgum stöðum í bænum. Rúmur hálftími leið frá því að lögreglu barst fyrsta tilkynningin um að maður væri á ferli í bænum, vopnaður boga og örvum, þar til hann var handsamaður.

Urðu að veita upplýsingar um ódæðismanninn vegna sögusagna um saklausa menn

Lögreglustjórinn Øyvind Aas greindi frá því á fréttamannafundi í gærkvöld að fullvíst væri að maðurinn hefði verið einn að verki en vildi að öðru leyti lítið segja um meintan ódæðismann eða hvatirnar að baki illvirkinu.

Norska lögreglan sendi svo frá sér tilkynningu í nótt þar sem hún upplýsti að sakborningurinn væri danskur ríkisborgari á fertugsaldri, búsettur í Kongsberg.

Í tilkynningunni sagðist lögregla hafa talið sig knúna til að upplýsa þetta vegna þess mikla fjölda sögusagna sem gengi á samfélagsmiðlum, þar sem menn sem ekki tengdust illvirkjunum með nokkrum hætti væru nefndir til sögunnar sem mögulegir drápsmenn.