Þýska var leiðinleg en stærðfræðin vonlaus

Mynd: Ingileif / Youtube

Þýska var leiðinleg en stærðfræðin vonlaus

14.10.2021 - 09:48

Höfundar

Snorri Helgason tónlistarmaður kveðst ekki hafa verið besti námsmaðurinn í Menntaskólanum við Hamrahlíð þegar hann stundaði þar nám. Tónlistin átti betur við hann og eftir að hafa lært tvo hljóma á gítar fór hann að semja lög - og hafa þau streymt frá honum síðan.

Síðasta árið hefur verið skrýtið í lífi Snorra Helgasonar tónlistarmanns vegna heimsfaraldurs, og hann er því feginn að lífið sé að komast í skorður og skemmtanahald að fara á flug á ný. Hann og eiginkona hans Saga Garðarsdóttir leikkona eru bæði listamenn í skemmtanabransanum svo takmarkanir settu strik í reikninginn hjá þeim. Þau sátu þó ekki aðgerðarlaus heldur fóru saman, Snorri, Saga og dóttir þeirra í bústað þar sem þau sömdu efni og hlóðu batteríin. Úr varð nýtt prógramm sem þau flytja saman við hin ýmsu tilefni. Hann ræddi við Lovísu Rut Kristjánsdóttur í Lagalistanum um æskuna, ferilinn og sína uppáhalds tónlist.

Hungurmorða börn og uppistand

Nú eru þau nefnilgea byrjuð að taka að sér veislustjórn saman þar sem Snorri spilar þjóðlagasprengda tónlist sína sem „er byggð á íslensku þjóðsögunum. Það er þungt, verið að drepa börn og deyja úr hungri,“ segir hann um sögusviðið. „Svo kemur hlé og þá kemur Saga með uppistand.“ Viðtökur við þessari uppákomu hafa verið mjög góðar. „Það er eitthvað við þennan sterka kontrast sem gerir mikið. Þetta verður svo heimilislegt,“ segir Snorri. „Það er eins og fólk hlusti betur á Sögu, sé búið að koma sér betur fyrir.“

Fjör heima þegar Ríó tríó æfði í stofunni

Hann er alinn upp á tónlistarheimili og gekk í plötusöfn eldri systkina sinna. Hann hlustaði því mikið á tónlist, ekki síst þegar hann fór í veiðiferðir með föður sínum og bróður. „Ég sat bara inni í bíl með vasadiskó og hlustaði allan daginn á meðan pabbi og Pétur bróðir voru að reyna að veiða,“ segir Snorri.

Hann er alinn upp í Hlíðunum með foreldrum og þremur eldri systkinum. Snorri gekk í Hlíðaskóla og fór þaðan í Menntaskólann við Hamrahlíð. Faðir Snorra, Helgi Pétursson, er einn stofnmeðlima hljómsveitarinnar Ríó tríó. Sveitin æfði gjarnan heima hjá fjölskyldunni og þá var mikið stuð.

Var kallaður Snorri Blur í MH

Sjálfur hélt Snorri mikið upp á hljómsveitina Blur sem hann sá á sínum fyrstu tónleikum og lét síðan kalla sig Snorra Blur. Í kjölfar þeirrar aðdáunar fór Snorri sjálfur að spila á hljóðfæri, glamra á gítar sextán ára gamall. Fjölskyldan flutti í Garðabæ þegar Snorri var í MH, hann æfði sig á gítarinn og fór í skólann. Hann var ekki duglegur námsmaður og undi sér síst í stærðfræði, og kveðst hafa fallið í stærðfræðiáföngum eða náð þeim með herkjum. „Ég bara næ þessu ekki. Allt sem heitir hugarreikningur er vonlaust. Svo fannst mér þýska leiðinleg sem mér finnst ekki í dag, en ég bara lak í gegn. Lærði fyrir það sem ég þurfti að læra,“ segir Snorri um menntaskólaárin sem þó voru ansi gjöful. Hann eignaðist nefnilega marga af sínum bestu vinum, sem enn eru vinir hans og félagar í tónlistinni.

Sprengjuhöllin, hlaðvarp og Víðihlíð

Um leið og hann kunni tvo hljóma á gítar fór hann að semja lög og hann stofnaði band í MH sem tróð í fyrsta sinn upp í hádegishléi í stóra salnum. Í menntaskólanum kynntist hann félögunum sem síðar stofnuðu hljómsveitina Sprengjuhöllina. „Bergur og Goggi stofnuðu Sprengjuhöllina og ég er fenginn inn seinna sem gítarleikari,“ rifjar Snorri upp. „Þannig kem ég inn í bandið og við erum bara að spila lögin hans Bergs en eftir þrjú ár kynnti ég þá fyrir lögunum mínum.“ Fljótlega í kjölfarið kynntust landsmenn lögum á borð við Verum í sambandi og Glúmur sem eru eftir Snorra, en textinn úr smiðju Bergs Ebba.

Snorri er tónlistarstjóri á Skuggabaldri, veitinga- og tónleikastað sem opnaði í júlí. Fyrst um sinn var stefnt að því að halda tónleika nokkrum sinnum í viku en fljótlega fjölgaði þeim svo tónleikarnir eru nú haldnir þar á hverju kvöldi. Það er nóg að gera hjá Snorra sem var að senda frá sér EP-plötuna Víðihlíð og er með aðra á leiðinni. Lagið Ingileif af plötunni er strax komið í heilmikla spilun. Auk þess mun hlaðvarp hans Fílalag fljótt rata á leikhúsfjalirnar.

Lovísa Rut Kristjánsdóttir ræddi við Snorra Helgason í Lagalistanum á Rás 2. Hér er hægt að hlýða á þáttinn í heild sinni.

Tengdar fréttir

Tónlist

„Svona late 90’s unglinga, fyllerís, kelerís dæmi“

Menningarefni

Verum heima með Sögu og Snorra