Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Svanasöngur á leiði

Mynd: UA / UA

Svanasöngur á leiði

14.10.2021 - 12:40

Höfundar

Daniel Craig snýr aftur í hinsta sinn sem njósnari hennar hátignar, James Bond, í kvikmyndinni No Time to Die. Myndin er verðugur endir á löngu og farsælu skeiði leikarans í hlutverkinu, segir Gunnar Ragnarsson gagnrýnandi.

Gunnar Ragnarsson skrifar:

Eftir átján mánaða töf er svanasöngur leikarans Daniel Craig í hlutverki útsendara hennar hátignar númer 007 loks kominn á hvíta tjaldið. Mikið er undir og augljóst að myndin fjallar með einum og öðrum hætti um arfleifð. Síðasta mynd Craigs, Spectre, kom út árið 2015 og hlaut dræmar undirtektir hjá gagnrýnendum þrátt fyrir góða aðsókn. Raunar var hún svo auðgleymanleg að ég er ekki alveg viss um að hafa séð hana, eða jú, mig rámar í Ralph Fiennes sem nýja M og var ekki ýkja hrifinn af honum í hlutverkinu. Þá var ætlun aðalleikarans að segja skilið við sögupersónuna, hann var að nálgast fimmtugt og særðist illa við tökur Spectre, en lét til leiðast eftir talsverða bið og samþykkti að ráðast í eina sendiför í viðbót, eins og við könnumst við úr glæpamyndum.

Glaumgosi hefðarveldisins á 21. öldinni

No Time to Die er fimmta kvikmynd Craigs í hlutverki njósnarans og sú 25. í Bondbálknum í heild sinni, en áður fór Sean Connery með hlutverk Bond sex sinnum (ef Never Say Never Again er undanskilin) og Roger Moore í heil sjö skipti (en sá gamli var eflaust aðeins of lengi í brúnni). Craig hefur því verið langlífur og farsæll á flesta mælikvarða. Þriðja mynd hans, Skyfall, er tekjuhæsta Bond-myndin frá upphafi, jafnvel þegar verðbólga er tekin með í reikninginn, en Connery-myndirnar Thunderball og Goldfinger uppskera silfur- og bronsverðlaun. Almennt hafa Craig-myndirnar rakað vel inn í kassann og fært þessa fornfrægu sögupersónu inn í 21. öldina. Áður en Craig kom til sögunnar höfðu Austin Powers myndirnar tröllriðið öllu um aldamótin með góðlátlegu gríni að ofurkynferðislegum söguheimi og margvíslegum klisjum Bondseríunnar. Aðstandendur Bond voru meðvitaðir um breyttan tíðaranda sem sást m.a. í fyrstu Brosnan myndinni, GoldenEye frá 1995, þegar Judi Dench í hlutverki M kallaði njósnarann „karlrembu, kvenhatandi risaeðlu, minjagrip frá kaldastríðsárunum“. 

Craig-myndirnar hafa fært þennan forngrip í nútímann – með alvarlegri tón og meiri tilfinningalegri vigt. Casino Royale, frá 2006, fyrsta mynd Craigs, er almennt talin ein sú allra sterkasta í bálknum og virkaði sem ákveðin forsaga persónunnar, sem færði meðferð hans á konunum í ákveðið orsakasamhengi ástarsorgar og svika. Einna eftirtektarverðast var að myndavélin gerði Bond sjálfan að kynferðislegu viðfangi, líkt og hafði verið gert með Bond-stúlkurnar frá upphafi, og er fræg senan þegar vöðvastæltur Craig rís úr sjónum á stuttri sundbrókinni. Leikarinn er augnayndi en líka margslungin útgáfa njósnarans, hrjúfur harðjaxl sem þolir linnulausar píningar Mads Mikkelsens eins og Mel Gibson í níunni, en viðkvæm sál undir yfirborðinu. Ein helsta nýlunda Craig-myndanna er að þær teljast vera framhaldssögur í auknum mæli, en í gegnum tíðina var hver og ein Bond-mynd sjálfstætt ævintýri. Þessi þróun nær hámarki í No Time to Die, sem er umfram allt mynd um Bond-myndir Craigs, og vitnar óspart í það sem undan kom. 

Gamalt og nýtt – klisjur og hasar

Í upphafi nýju myndarinnar heimsækir hetjan leiði Vesper, heitkonu sinnar úr Casino Royale sem sveik hann grimmilega, og sú heimsókn hleypir framvindunni af stað. Bond á franska kærustu, Madeleine, leikna af hinni frábæru Leu Seydoux, sem hann kynntist í myndinni á undan, Spectre. Blábyrjunin er heldur óhefðbundin fyrir Bond-ræmu en þar er greint frá áfalli í æsku ástkonunnar, sem tengir hana við meginþorparann, Lyutsifer nokkurn. Ofbeldisfull senan minnir ef eitthvað er eilítið á seinni tíma Tarantino í uppbyggingu. Áfallið er listilega tengt saman við nútíðina með myndrænni samsvörun í klippingu sem sýnir að persónurnar eru enn að glíma við drauga fortíðar. Bond fer að leiðinu til að reka út illa anda en þess í stað springur allt í loft upp og brennt barnið kennir auðvitað unnustunni um málavexti. Ástin hverfur hægt úr augsýn á lestarpalli og við tekur bömmerballaða Billie Eilish, óvenjulegt og flott þemalag, sem endurspeglar nútímalega nálgun og „emo“ Bond. Upphafskaflinn, og magnaður hasareltingarleikur á Aston Martin og krossara um þröng stræti í gullfallegu og ofurrómantísku ítölsku fjallaþorpi, er einn sterkasti kafli myndarinnar, eins og oft er raunin með myndirnar um njósnarann. 

Á Jamaíku sleikir Bond sárin. Alþjóðlegu skúrkasamtökin Spectre úr samnefndri mynd baka áfram vandræði og gamli vinurinn Felix Leiter, útsendari bandarísku alríkislögreglunnar, sækir eftirlaunaþegann heim og biður um hjálp. Leiter er gamall félagi Bond úr bókaflokknum sem lánaði okkar manni fyrir fjárhættuspili í áðurnefndri Casino Royale. Í ljós kemur að nýtt efnavopn hefur verið þróað sem getur útrýmt mannfólki út frá erfðaefni þess, sem lýsir eflaust áhyggjum handritshöfunda af rannsóknum Íslenskrar erfðagreiningar. Allt gerðist þetta undir umsjá yfirmannsins M hjá MI6. Bond slær því til og reynir að bjarga málum, fyrst með CIA og svo síðar með gömlu félögunum úr bresku leyniþjónustunni. Söguþráðurinn er furðuleg flækja ofin úr fyrri fléttum Craig-myndanna. Meginskúrkurinn, Lyutsifer, leikinn af Rami Malek sem hlaut Óskarinn fyrir leik sinn sem Freddie Mercury í Bohemian Rhapsody, er ný viðbót og mesti ljóðurinn. Austur-evrópskur hreimur, brennt andlit, andlitsgríma úr japanska Kabuki-leikhúsinu og brútalískt greni með sovésku myndmáli á veggjum – þetta er skrítin blanda af klisjum. Úr verður óspennandi persóna sem heldur ekki vatni. Það er þó ekki í fyrsta skiptið sem Bondmynd inniheldur fáránlega fléttu og asnalega vonda kalla og engin ástæða til að örvænta.

Stjarna Craigs skín hæst

Styrkur myndarinnar felst í stjörnukröftum Daniels Craig, velvildinni sem hann hefur áunnið sér, og tilfinningaferðalagi persónunnar. Hasarinn er heilt yfir spennandi. Bond er almennt í hlutverki þess hundelta en í Casino Royale var hann sá sem elti, sá hættulegi. Gjarnan berst hann með konu sér við hlið en það eru ýmist: Nomi, arftakinn í leyniþjónustunni sem Lashana Lynch leikur (sem gæti verið vísir að Marvel-„meta“-væðingu söguheimsins, sjáum til), hin stórskemmtilega Paloma í Kúbu-kaflanum og unnustan Madeleine. Í uppgjörinu eru síðan farnar nýjar leiðir, Bond kveður með krafti og tekur að sér ný hlutverk píslarvotts og fjölskylduföður. Hvað myndi Rooger Moore segja við öllum þessum heilindum? Þegar öllu er á botninn hvolft er No Time to Die verðugur endir á skeiði Craigs í hlutverki Bond sem skilar sögubálknum á forvitnilegan stað.

 

Tengdar fréttir

Tónlist

Bestu James Bond lög allra tíma

Kvikmyndir

Lengsta Bond-myndin til þessa

Kvikmyndir

Daniel Craig kveður sem James Bond