Peningafölsun til rannsóknar á Norðurlandi vestra

Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan á Norðurlandi eystr
Lögreglan á Norðurlandi vestra hefur til rannsóknar peningafölsunarmál eftir að tilkynnt var um falsaðan seðil í verslun í umdæminu. Þó málið virðist ekki vera umfangsmikið tekur lögreglan slíkum fölsunum alltaf af fullri alvöru.

Einn 5000 krónu seðill

Birgir Jónasson, lögreglustjóri á Norðurlandi vestra segir að verslunareigandi í sveitarfélaginu Skagafirði hafi tilkynnt um málið til lögreglu. Um er að ræða einn fimm þúsund króna seðil sem virðist hafa slæðst með öðrum alvöru seðlum. 

„Þetta er í sjálfu sér bara mjög einföld aðferð, þannig, þetta er bara seðill sem virðist hafa verið ljósritaður báðar hliðar og límdar saman. Ég myndi nú ekki segja að þetta væri ýkja raunverulegur seðill,“ segir Birgir.
 

Alvarlegt brot

Lögreglan setti inn tilkynningu á Facebook-síðu sína þar sem biðlað var til almennings um að hafa augun opin og þeir sem byggju yfir upplýsingum ættu að hafa samband. Enn hafa engar ábendingar borist.

„Við munum leita eftir vísbendingum og athuga hvort að það séu einhverjar eftirlitsmyndir og annað,“ segir Birgir.

Aðspurður segir Birgir að lögreglan líti málið alvarlegum augum. „Þetta er auðvitað alvarlegt brot svona peningafölsun og varðar við fangelsi. Við leggjum okkur fram við að rannsaka þetta mál og upplýsa ef unnt er.“