Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Öryggisviðbúnaður hertur í Noregi

14.10.2021 - 12:42
epa09522591 Police personnel investigate after an attack in Kongsberg, Norway, 13 October 2021. Five people confirmed dead in an attack with a weapon, supposed to be a bow and arrows. The perpetrator was arrested and Police is investigating the crime scenes around the city center of Kongsberg.  EPA-EFE/Torstein Boe  NORWAY OUT
 Mynd: EPA-EFE - NTB
Norska öryggislögreglan PST herti í dag viðbúnaðarstig vegna hugsanlegra hryðjuverka eftir að karlmaður á fertugsaldri varð fimm að bana í bænum Kóngsbergi síðdegis í gær. Hann notaði boga og örvar við voðaverkið. Tveir til viðbótar særðust alvarlega.

Öryggislögreglan segir að ódæðin á Kóngsbergi beri merki hryðjuverka, en það sé lögreglunnar í Suðaustur-Noregi að skera úr um það. Ódæðismaðurinn hefur verið nafngreindur í norskum fjölmiðlum. Hann heitir Espen Andersen Bråthen. Hann var í fyrra dæmdur í sex mánaða nálgunarbann gagnvart nánum ættingjum sem hann hafði hótað að myrða. Þá hefur hann áður fengið dóma fyrir ofbeldisbrot og brot á fíkniefnalöggjöfinni. 

Lögreglan greindi frá því á fundi með fréttamönnum í dag að Bråten hefði fyrir nokkru snúist til íslamstrúar. Henni hefðu borist ábendingar um að hann hefði gerst róttækur í trúnni að undanförnu. Meðal annars væri verið að kanna hvort rót illvirkjanna í gær væri þar að finna.

Bråthen kemur fyrir dómara í dag þar sem hann verður úrskurðaður í gæsluvarðhald. Þá hefur ákæruvaldið farið fram á að hann sæti geðrannsókn. Haft er eftir réttargæslumanni ódæðismannsins að hann hafi til þessa verið samvinnuþýður við lögreglu.