Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ólíkar skoðanir á lausn í Norðvesturkjördæmi

Mynd með færslu
 Mynd: Geir Ólafsson - RÚV
Skiptar skoðanir eru meðal landsmanna hvernig leysa eigi úr þeim vandkvæðum sem komu upp vegna talningar í Norðvesturkjördæmi. Þetta sýnir þjóðarpúls Gallup. Flestum finnst að síðari talningin eigi að standa.

Gallup lagði fjóra kosti fyrir svarendur, að láta fyrri talningu atkvæða gilda, seinni talningu gilda, kjósa aftur í Norðvesturkjördæmi eða kjósa á ný á landinu öllu. Ekki var afgerandi stuðningur við einn kost en flestir, eða 37 prósent, voru á því að síðari talningin ætti að gilda. 28 prósent vildu láta fyrri talninguna gilda. Litlu færri, 24 prósent, sögðust vilja aðra kosningu í Norðvesturkjördæmi og 12 prósent vildu láta kjósa aftur á landinu öllu.

Konur voru frekar hlynntar því að fyrri talningin ætti að gilda og kann það að skýrast af því að miðað við fyrri talninguna voru konur á þingi 33 en þeim fækkaði um þrjár í síðari talningu.

Langstærstur hluti kjósenda Sjálfstæðisflokks vill láta síðari talningu standa. Meirihluti kjósenda Framsóknarflokks er á sömu skoðun sem og 40 prósent kjósenda Vinstri grænna.

Dæmið snýst við hjá kjósendum annarra flokka. Kjósendur Viðreisnar og Miðflokks eru frekar hlynntir því að láta fyrri talninguna gilda á meðan kjósendur Pírata, Samfylkingar og Flokks fólksins velja helst að kosið verði aftur í Norðvesturkjördæmi.

Mestan vilja til að kjósa aftur á landinu öllu er að finna hjá kjósendum Sósíalistaflokksins.  

Einnig var spurt um afstöðu til rafrænna kosninga. Helmingur aðspurða var hlynntur rafrænum kosningum en hinn helmingur vill að kosið verði með svipuðum hætti og hingað til. Mestur stuðningur við rafrænar kosningar er meðal kjósenda Viðreisnar en minnstur hjá kjósendum Sjálfstæðisflokks.

Magnús Geir Eyjólfsson