Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Norðurslóðir í brennidepli loftslagsbaráttunnar

Mynd: Hjalti Haraldsson / RÚV
„Þið eruð þátttakendur í tímamótaviðburði sem sendir skilaboð, ekki aðeins til norðurslóða heldur heimsins alls, að norðurslóðir hafi breyst. Þær eru ekki lengur einangraðar á hjara veraldar heldur leika lykilhlutverk í alþjóðastjórnmálum og loftslagsmálum.“

Þetta sagði Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti, þegar hann setti þing Hringborðs norðurslóða, Arctic Circle, í Hörpu í dag.

Í ræðu sinni sagði Ólafur Ragnar að það myndi skipta sköpum í baráttunni við loftslagsbreytingar á heimsvísu að vel tækist til á norðurslóðum. Hann þakkaði þátttakendum fyrir komuna og sagði ráðstefnuna lýðræðisvettvang þar sem fólki væru ekki settar skorður. Hann hvatti viðstadda til að spyrja ráðamenn knýjandi spurninga um aðgerðir í loftslagsmálum.

„En það þýðir að árangurinn af þessari ráðstefnu er í ykkar höndum,“ sagði Ólafur og beindi orðum sínum til gesta.

Fjöldi fyrirmenna tekur þátt í ráðstefnunni og má þar nefna Nicolu Sturgeon, fyrsta ráðherra Skota, Jeppe Kofod, utanríkisráðherra Danmerkur, Virginijus Sinkevicius umhverfisstjóra Evrópusambandsins,  Jongmoon Choi, aðstoðarutanríkisráðherra Suður-Kóreu, og Bárð á Steig Nielsen, lögmann Færeyja auk tveggja öldungadeildarþingmanna í Bandaríkjunum.

alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV