Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Kötturinn Eldur birtist óvænt í blárri peysu

14.10.2021 - 20:00
Mynd með færslu
 Mynd: Þórunn Antonía Magnúsdóttir
Kötturinn Eldur er ársgamall mann- og barnavinur sem býr í Vesturbænum. Að sögn eigandans hefur hann líka sterka tískuvitund og veit alveg hverju hann vill klæðast. Nýverið birtist hann óvænt í glænýrri peysu.

Eldur er hluti heimilisfólksins á heimili Þórunnar Antoníu Magnúsdóttur og hún sagði frá nýju peysunni hans í Facebookhópnum Spottaðu kött í gær.

„Ég hef lent i ýmsu stórskemmtilegu og skrýtnu í mínu lífi...en þegar kötturinn minn hann Eldur skottaðist inn klæddur í bláa peysu eftir að við krakkarnir vorum nýkomin heim áðan eftir skóla er eitt af því fyndnara sem ég hef séð,“ segir í færslu Þórunnar Antoníu. 

Mynd með færslu
 Mynd: Þórunn Antonía Magnúsdóttir

Enginn viti hvaðan peysan kom, en Eldi hafi greinilega líkað vel að klæðast henni. Hann harðneitaði að fara úr peysunni bláu og svaf eins og steinn íklæddur henni í alla nótt.

Í samtali við fréttastofu segir Þórunn að Eldur hafi verið ættlæddur frá Villiköttum á Suðurlandi og að strax hafi komið ljós hvaða dásemdarkött hann hafði að geyma.

Hún segir að hann sé mjög hrifinn af hundapeysu sem fer honum mjög vel líkt og sú nýja bláa. Hins vegar vildi hann ekkert hafa með grænan trúðakraga og ól sem sett var á hann í fyrsta skipti sem hann lagði í langferð í Vesturbænum.

Eftir útivistina kom hann hálstauslaus heim og enginn hefur hugmynd um hvað varð um það. Eldur er kominn úr peysunni núna en Þórunn Antonía segist mjög spennt fyrir að sjá hverju hann verði klæddur næst þegar hann snýr heim.