Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Íbúar kvarta undan hávaða frá Sundahöfn

Mynd með færslu
Mynd úr safni.  Mynd: Lára Ómarsdóttir - RÚV
Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur hafa borist sex kvartanir frá því í byrjun ágúst vegna hávaða og ónæðis frá starfsemi við Sundahöfn, þar af fimm síðustu fjóra daga. Talið er að hávaðinn síðustu daga hafi borist frá erlendu rannsóknaskipi. Þó nokkrar sambærilegar kvartanir bárust í upphafi ársins, frá íbúum í Laugarneshverfi, Heimum og Grafarvogi.

Kvartanirnar hafa fyrst og fremst beinst að skiparekstri og starfsemi í kringum hann eins og losun og lestun skipa. Í svari frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur til fréttastofu segir að gangur ljósavéla að nóttu virðist valda mestum hávaða. Misjafnt sé eftir skipum hvort og hversu miklu ónæði ljósavélarnar valda. 

Hávaðinn getur verið yfir mörkum

Í tengslum við kvartanir fyrr á árinu mældi Heilbrigðiseftirlitið hávaða frá starfsemi í Sundahöfn. Mælingarnar sýndu að hávaðinn gat verið yfir mörkum í reglugerð um hávaða og gerð var krafa á skipafélögin um úrbætur og farið fram á að tímasett úrbótaáætlun yrði send Heilbrigðiseftirlitinu. 

Eimskip hefur sent úrbótaáætlun þar sem fram kemur til hvaða aðgerða hefur verið gripið til að draga úr hávaða og ónæði og hvað stendur til að gera frekar. Meðal úrbóta er rafvæðing hafnarkrana sem er lokið og rafvæðing vinnutækja eins og gámalyftara, sem er hafin og verður unnið að áfram. Einnig verða notaðar gúmmímottur undir lestarlúgur skipa í affermingu á kvöldin. Vinnuferlar við næturvinnu verði yfirfarnir með starfsfólki í því skyni að draga úr óþörfum hávaða. Langtímamarkmið eru landtenging rafmagns í skip þannig að ekki þurfi að keyra ljósvélar í höfn og verður byrjað á nýjustu skipum Eimskips og mun það vonandi gerast á næsta ári.

Samskip ekki sent úrbótaáætlun

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hefur gert kröfu um sambærilega viðbragðsáætlun frá Samskipum en hún hefur ekki borist enn sem komið er.

Í svarinu frá Heilbrigðiseftirlitinu segir jafnframt að skipaumferð sé ekki öll á vegum skipafélaganna heldur komi þar einnig skemmtiferðaskip, fiskiskip og ýmis önnur skip sem koma óreglulega. Til dæmis er ýmislegt sem bendir til þess að kvartanir síðustu daga séu vegna hávaða frá erlendu rannsóknaskipi.

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV