Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Gagnrýna skiptingu úthlutunar úr Fiskeldissjóði

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV
Vesturbyggð fékk úthlutað til tveggja verkefna af þeim fimm sem sótt var um í Fiskeldissjóð og fékk aðeins brot þeirra fjármuna sem sóst var eftir. Bæjarstjóri Vesturbyggðar segir þess fyrstu úthlutun endurspegla aðstöðumun milli stærri og minni sveitarfélaga.

Fiskeldi hefur leikið stórt hlutverk í því að snúa við áralangri neikvæðri byggðaþróun á Vestfjörðum. Gjald er tekið af fiskeldisstöðvum sem meðal annars rennur í fiskeldissjóð sem stuðla á að uppbyggingu í sveitarfélögum þar sem fiskeldi er stundað.

Í fundargerð bæjarráðs Vesturbyggðar 12. október síðastliðinn er gerð athugasemd við að aðeins minni hluti tekna í sjóðnum renni til sveitarfélaga á Vestfjörðum. Vesturbyggð hafi staðið í innviðauppbyggingu vegna fiskeldis síðan árið 2010.

Mikið fiskeldi er í Vesturbyggð og Rebekka Hilmarsdóttir bæjarstjóri kveðst vonsvikin og segir úthlutun fiskeldissjóð hafi áhrif á framhald mikilvægra verkefna í sveitarfélaginu. Unnið sé að fjárhagsáætlun og tekið tillit til þeirra verkefna sem sveitarfélagið treysti sér í á næsta ári. 

„Það eru ekki miklir aðrir sjóðir eða peningar í að sækja fyrir þessari innviðauppbyggingu sem að Vesturbyggð hefur verið að berjast við frá því 2010. Auðvitað voru þetta mikil vonbrigði að við fengjum ekki nema örlítið brot af þeim miklu fjármunum sem eru inni í sjóðnum.“  

Rebekka segir megnið af fjármunum sjóðsins koma af sunnanverðum Vestfjörðum. Sveitarfélagið hefur áður gagnrýnt fyrirkomulag við útdeilingu tekna vegna gjaldtöku af fiskeldi í gegnum fiskeldissjóð. Í fundargerð bæjarráðs segir: 

„ Ljóst er af úthlutun fiskeldissjóðs 2021 að útdeiling tekna af gjaldtöku af fiskeldi í sjó sé ekki í samræmi við fullyrðingar í greinagerð laga um töku gjalds vegna fiskeldis í sjó og fiskeldissjóð nr. 89/2019, þar sem kom fram að samhliða uppbyggingu fiskeldis munu kröfur um innviðauppbyggingu og þjónustu í viðkomandi sveitarfélögum aukast.“

Mikilvægt sé að þær tekjur sem falli til á grundvelli laganna renni til sveitarfélaganna þar sem nýting auðlindarinnar og starfsemi fyrirtækja í fiskeldi fari fram og þörfin til uppbyggingar þjónustu sé mest.

Vesturbyggð benti á þegar lög um fiskeldissjóð voru til umfjöllunar Alþingis að æskilegra væri að skoða aðrar leiðir til útdeilingar fjármuna í stað þess að mynda nýja yfirbyggingu með nýrri stjórn. Þær hugmyndir hlutu engan hljómgrunn en Rebekka segist vonast eftir breytingum með nýrri ríkisstjórn. 

„Það er ekki bara fiskeldissjóðurinn sem við höfum verulegar áhyggjur af. Það er í rauninni þetta umhverfi og hvernig við tryggjum að þær tekjur sem eru að verða til af þessari mikilvægu atvinnugrein fyrir þjóðarbúið, að eitthvað af þessum tekjum verði eftir í heimabyggðunum.“