Fyrrverandi forstjóri Póstsins braut ekki lög með pósti

14.10.2021 - 07:58
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Birgir Jónsson, fyrrverandi forstjóri Póstsins, braut ekki persónuverndarlög með tölvupósti sem hann sendi eftir að fjórum starfsmönnum á starfstöð fyrirtækisins var sagt upp störfum. Tveir starfsmenn kvörtuðu til Persónuverndar vegna tölvupóstsins og ummæla Birgis um málið í fjölmiðlum.

Annar starfsmannanna var stöðvarstjóri á starfsstöð Póstsins.

Hún taldi að Birgi hefði ekki verið heimilt að koma fram á opinberum vettvangi og tjá sig um starfshætti hennar þannig að unnt hefði verið að rekja upplýsingarnar til hennar þrátt fyrir að hún hefði ekki verið nafngreind.  Umfjöllunin hefði verið persónugreinanleg enda almennt verið vitað hver hefði gegnt hennar stöðu. 

Þá sagði hún Birgi hafa gert lítið úr sínum störfum með orðalagi í tölvupósti sem hann sendi starfsmönnum eftir uppsagnirnar. Þar hefði hann meðal annars fullyrt að mörgum starfsmönnum hefði liðið mjög illa og að þjónusta við viðskiptavini hefði skaðast.

Hinn starfsmaðurinn kvartaði einnig undan ummælum Birgis í fjölmiðlum og sakaði hann um að niðurlægja hana og saka hana um óheiðarleika með orðalagi sínu í tölvupóstinum. Þar hefði hann vísað því á bug að uppsögn hennar hefði tengst tilkynningu hennar um einelti. 

Persónuvernd vísaði frá kvörtun starfsmannanna tveggja vegna ummæla Birgis í fjölmiðlum. Það væri dómstóla að meta hvort einhver hefði farið út fyrir stjórnarskrárvarið tjáningarfrelsi sitt.  Hvað tölvupóstinn varðaði horfði Persónuvernd til þess að málefni fyrirtækisins hefðu verið til umfjöllunar í fjölmiðlum ásamt því að Pósturinn hefði staðið frammi fyrir niðurskurði.

Stofnunin féllst því á að Pósturinn hefði þurft að bregðast við aðstæðum með upplýsingagjöf til starfsmanna þar sem hagsmunir starfsmannahóps fyrirtækisins voru taldir vega þyngra en hagsmunir kvartanda af því að hún færi ekki fram. Var því talið að forstjórinn fyrrverandi hefði ekki brotið lög.

Birgir er nú hættur hjá Póstinum og stýrir flugfélaginu Play.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV