Fjórir féllu í loftárás Ísraela á Sýrland

14.10.2021 - 04:12
epa04518968 (FILE) A file photo dated 27 June 2013 showing a Israeli Air Force F-15I tactical fighter jet taking off for an air show presented at a graduation ceremony of new pilots of the Israeli Air Force at the Hatzerim Air Force base, outside
Ísraelsk orrustuþota. Mynd: EPA - EPA FILE
Ísraelsher felldi einn sýrlenskan hermann og þrjá bardagamenn aðra, sem sagðir eru hliðhollir Írönum, í loftárás nærri borginni Palmyra í Homshéraði í Sýrlandi í gærkvöld. Þetta hefur Sýrlenska mannréttindavaktin eftir heimildarmönnum í héraði. Sýrlenska ríkisfréttastofan SANA greindi frá því nokkru áður að einn hermaður hefði fallið í árásinni en þrír menn særst.

Samkvæmt heimildum Sýrlensku Mannréttindavaktarinnar beindist loftárásin að nokkrum bækistöðvum íranskra hersveita og bardagasveita sem njóta tilstyrks þeirra, nærri herflugvellinum austur af Palmyra.

Ekki liggur fyrir hverrar þjóðar þremenningarnir voru, sem sagðir eru hafa verið hliðhollir Írönum. Sjö menn til viðbótar, þar á meðal þrír sýrlenskir hermenn, særðust í árásinni, sem gerð var skömmu fyrir miðnætti að staðartíma.

Tveir erlendir bardagamenn í sveitum studdum af Írönum féllu í loftárás Ísraela á sama flugvöll í síðustu viku og sex sýrlenskir hermenn særðust.