Enn ósamið um hundrað ný hjúkrunarrými

14.10.2021 - 19:03
Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Enn hefur ekki verið staðið við áform um hundrað ný tímabundin hjúkrunarrými sem boðuð voru í lok síðasta árs. Fjölgun rýmanna hefur verið nefnd sem mikilvægur þáttur í að létta á Landspítalanum svo slaka megi á sóttvarnaaðgerðum.

Ýmsar ástæður hafa verið tilteknar gegn því að aflétta sóttvarnatakmörkunum, oft vegna aukinna smita í samfélaginu en einnig hafa þættir óháðir covid verið nefndir. Í byrjun mars var ekki talið æskilegt að gera tilslakanir vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga. Nú er talið hugsanlegt að RS-veira og inflúensa geti sett strik í reikninginn. 

Það að jarðhræringar og flensur geta haft áhrif á afléttingar, snýr að því að halda álagi á Landspítalann innan þeirra marka sem hann ræður við og svo virðist sem lítið megi út af bregða. Til dæmis var spítalinn færður á hættustig í júlí vegna fjölgunar smita í samfélaginu. Þá lágu tveir inni vegna COVID-19 og von var á að tíu til viðbótar þyrftu að leggjast inn.

Fjölgun hjúkrunarrýma hefur verið nefnd sem mikilvægur þáttur til að létta álagi af Landspítalanum en nú virðist standa tæpt að náist að fjölga tímabundnum rýmum á suðvesturhorninu fyrir árslok.  

Fjárlög þessa árs gera ráð fyrir að 1.350 milljónum króna sé varið til fjölgunar hjúkrunarrýma. Í skriflegu svari heilbrigðisráðuneytisins við fyrirspurn fréttastofu kemur fram að hjúkrunarrýmum hefur verið fjölgað um 18 frá því í haust, séu önnur legurými talin með eru þau samtals 52. Enn hefur þó ekki verið samið um hundrað ný tímabundin hjúkrunarrými sem taka átti í notkun síðastliðið sumar.

Samningur um húsnæði og rekstur við Heilsuvernd var langt kominn í sumar þegar húseigandi hætti við. Hefja þurfti ferlið að nýju og hefur Heilsuvernd boðið tvær byggingar undir slíkan rekstur. Hvort þessir valkostir verði samþykktir liggur hins vegar ekki fyrir en málið er í vinnslu hjá Sjúkratryggingum og í ráðuneytinu.

„Við erum bara í bið eins og er. Við buðum þetta í lok ágúst samkvæmt því sem kom fram hjá Sjúkratryggingum að óska eftir slíku rými. Við höfum boðið fram tvær lausnir og erum bara að bíða eftir svörum,“ segir Teitur Guðmundsson, læknir og framkvæmdastjóri Heilsuverndar

Teitur segir engar líkur á því að húsnæði geti verið klárt fyrir áramót. „Við erum komin í töf með þetta verkefni sem var lagt af stað með í byrjun árs og það tekur marga mánuði að innrétta rými og ráða mannskap og gera það sem gera þarf. En það væri snemma á næsta ári ef allt gengur eftir.“

Hjördís Rut Sigurjónsdóttir