Dani á fertugsaldri í haldi vegna morðanna í Kongsberg

14.10.2021 - 00:33
Mynd með færslu
 Mynd: Kjetil Stormark - NRK
Maðurinn sem handtekinn var í tengslum við mannskæða árás í norska bænum Kongsberg síðdegis í gær er danskur karlmaður á fertugsaldri, sem búsettur er í bænum. Hann hefur verið kærður fyrir morð og morðtilraunir. Í tilkynningu sem lögregla sendi frá sér í nótt segist hún staðfesta þessar upplýsingar um hinn kærða því fjöldi sögusagna gangi nú á samfélagsmiðlum, þar sem menn sem ekki er með nokkrum hætti hægt að tengja við illvirkin eru nefndir til sögunnar sem mögulegir drápsmenn.

Þetta kemur fram á vef norska ríkisútvarpsins, NRK.  

Hafði rúman hálftíma til að athafna sig

Fimm liggja í valnum eftir að maðurinn gekk um bæinn með boga og örvar að vopni á sjöunda tímanum í gær og skaut á fólk á mörgum stöðum, að því er virðist af handahófi. Tveir til viðbótar liggja sárir á gjörgæsludeild eftir árásina en munu ekki vera í lífshættu.

Rúmur hálftími leið frá því að lögreglu barst fyrsta tilkynningin um að maður væri á ferli í bænum, vopnaður boga og örvum, þar til hann var handsamaður. Lögreglustjórinn Øyvind Aas greindi frá því á fréttamannafundi í gærkvöld að fullvíst þyki að maðurinn hafi verið einn að verki. Hann segir rannsakendur ekki útiloka að árásin flokkist sem hryðjuverk en segir þó of snemmt að fullyrða nokkuð um hvatirnar að baki ódæðisverkinu.