Breiður stuðningur allra kjósenda við Katrínu einstakur

14.10.2021 - 09:14
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Dósent í stjórnmálafræði segir það einstakt hversu breiðan stuðning Katrín Jakobsdóttir hefur meðal kjósenda flestallra flokka.

Nærri 58 prósent aðspurðra vilja Katrínu áfram sem forsætisráðherra í næstu ríkisstjórn samkvæmt nýrri könnun Maskínu, og nýtur hún mests stuðnings meðal kjósenda allra flokka, nema Miðflokksins og Sósíalista.

„Þetta er alveg einstakt og segir svo mikla sögu um hvaða álit fólk almennt hefur á Katrínu,“ sagði Stefanía Óskarsdóttir, dósent í stjórnmálafræði, í Morgunútvarpinu á Rás tvö í morgun.

Næstur á eftir Katrínu er Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, en 9,8% vilja sjá hann í forsætisráðuneytinu. Stuðningur við Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, er 7,6% eða innan við þriðjungur þeirra sem kusu flokk hans í kosningunum í síðasta mánuði.

„Fyrir fram held ég að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Sigurður Ingi, formaður Framsóknarflokksins, hafi gefið sér að ef stjórn þessara þriggja flokka héldi áfram, yrði hún undir forystu Katrínar. Enda má kannski segja að það sé ákveðin svona vinningsformúla þar miðað við reynslu síðasta kjörtímabils. En sögulega óvenjulegt að formaður minnsta flokks í ríkisstjórn sé forsætisráðherra. Venjulegast er það formaður stærsta stjórnarflokksins,“ sagði Stefanía Óskarsdóttir.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Stefanía Óskarsdóttir, dósent í stjórnmálafræði.