Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Andlát: Björgvin Þorsteinsson

Mynd með færslu
 Mynd:  - Björgvin Þorsteinsson

Andlát: Björgvin Þorsteinsson

14.10.2021 - 13:38
Kylfingurinn Björgvin Þorsteinsson er látinn. Hann var 68 ára. Björgvin var einn fremsti kylfingur íslenskrar golfsögu.

Björgvin varð sex sinnum Íslandsmeistari í golfi. Fyrst 1971 og vann svo Íslandsmótið fimm ár í röð á árunum 1973-1977. Hann var lengi vel sigursælasti kylfingur Íslandsmótsins eða þar til Birgir Leifur Hafþórsson bætti Björgvins árið 2016 þegar Birgir Leifur vann Íslandsmótið í sjöunda sinn.

Björgvin átti um tíma sæti í stjórn Golfklúbbs Akureyrar og var í stjórn Golfsambands Íslands. Þá sat hann í Áfrýjunardómstóli ÍSÍ. Um nýliðna helgi var hann einmitt heiðraður fyrir störf sín af ÍSÍ þegar hann var sæmdur heiðurskrossi ÍSÍ á ársþingi ÍSÍ. Fréttablaðið greindi fyrst frá andláti Björgvins.

Í sumar heiðraði Golfsamband Íslands Björgvin sérstaklega með því að taka upp ný verðlaun á Íslandsmótinu í golfi. Það er verðlaunagripurinn Björgvinsskálin, en hana hlýtur besti áhugamaðurinn á Íslandsmótinu.