Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Aðeins þrjú gos vörðu lengur frá upphafi 20. aldar

Mynd með færslu
 Mynd: Sigurður Helgason - RÚV
Frá upphafi 20. aldar hafa aðeins þrjú gos varað lengur en eldgosið í Geldingadölum, Heklugosið 1947-48, Surtseyjargosið 1963-67 og Kröflueldar 1975-84. Gosið er ekki jafnhátt á lista yfir rúmmál gosefna í eldgosum, aðeins hraun flæðigosanna úr Öskju 1961, Heklu 1981 og Fimmvörðuhálsi 2010 eru minni og aflið er heldur ekki mikið í samaburði við önnur gos. Um þetta fjallar Sigurður Steinþórsson, prófessor í jarðfræði við Háskóla Íslands, í nýrri færslu á Vísindavefnum.

„Öflugustu gosin á listanum eru annars vegar flæðigosin miklu, Skaftáreldar 1783-84 og Holuhraun 2014-15, og hins vegar sprengigos, hrein (Hekla 1980) eða með „stuttum flæðigoshala“ (Hekla 1991 og 2000) – sprengihluti Heklu 1947 var gríðarlega öflugur en honum fylgdi langvarandi hraunflæði,“ segir í færslunni. 

Sigurður miðað við í færslunni að gosinu hafi lokið 18. september en goslokum hefur þó ekki verið lýst yfir. Síðan þá hefur gosið legið alveg niðri og engin kvika komið upp úr gígnum. Þó hefur verið rennsli innan hraunsins og sléttan í hrauninu vestan gígsins, nyrst í Geldingadölum, sigið um 5-7 metra. Tilfærslan skýrir þá glóð sem öðru hverju hefur sést í hrauninu og tilfærsla af þessu tagi er þekkt í hraungosum. Hraunið er nú 150 milljón rúmmetrar og flatarmálið 4,85 ferkílómetrar.

Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands skiptir gosinu í fjögur tímabil: 

Fyrsta tímabilið stóð í um tvær vikur og einkenndist af fremur stöðugu hraunrennsli, að meðaltali um 6 m3/s.

Annað tímabilið, sem einnig stóð í tvær vikur, einkenndist af opnun nýrra gosopa norðan við upphaflegu gígana. Hraunrennsli var nokkuð breytilegt, á bilinu 5-8 m3/s. Eftir þetta tímabil hefur virknin verið öll í einum gíg.

Þriðja tímabilið stóð í tvo og hálfan mánuð og endaði í lok júní. Hraunrennsli var lengst af nokkuð stöðugt, um 12 m3/s. Hraun rann ýmist í Geldingadali, Meradali eða Nátthaga.

Fjórða tímabilið hófst í lok júní. Það einkennist af kviðukenndri virkni. Hraunrennsli virðist hafa sveiflast töluvert á þessu tímabili en hefur að meðaltali verið 8-11 m3/s, og lækkaði heldur frá lokum júní til loka ágúst.