Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Undirbúa uppbyggingu Latabæjar í Borgarnesi

Mynd með færslu
 Mynd: Latibær
Nýsköpunarfyrirtækið Upplifunargarðurinn hefur um fjögurra ára skeið skoðað möguleika á uppbyggingu miðstöðvar heilsu og hollustu í anda Latabæjar í Borgarnesi. Þar er ætlunin að rísi matsölustaður, torg og myndver með Latabænum sjálfum inni í húsi.

Magnús Scheving skapari Latabæjar kemur að málum ásamt Helgu Halldórsdóttur og Páli Kr. Pálssyni verkefnastjóra. Turner Broadcasting sem keypti allt hlutafé Latabæjar fyrir tíu árum, hefur gefið leyfi til undirbúa verkið og nýta vörumerkið ef vel gengur.

Magnús hefur að sögn Helgu hannað 1500 til 2000 fermetra hús sem ætlunin er að rísi á lóð við Digranesgötu og á klettinum ofan við í samstarfi við Kaupfélag Borgfirðinga. Helga segist sérstaklega ánægð með að kaupfélagið sé með í uppbyggingunni.  

Helga segir að Borgnesingum finnist þeir eiga svolítið í Magnúsi enda ólst hann þar upp og hefur sagt einhverjar persónur Latabæjar eiga uppruna sinn úr uppvextinum þar. 

Verkefnið verður kynnt á fundi með bæjarbúum í kvöld en Helga segir áhugann mikinn. Mikilvægt sé að kynna verkefnið vel fyrir bæjarbúum, auðvitað séu skiptar skoðanir en hún telur flesta jákvæða í garð verkefnisins.

Hún segir ákveðnar hugmyndir á flugi um hvernig Latibærinn verði, en segist vilja vera varfærinn í yfirlýsingum. Kannað hafi verið með nokkrar lóðir í kringum bæinn en hún telur staðsetninguna við Digranesgötuna geta orðið mikla lyftistöng.

Á fundinum verði kynnt umsókn Upplifunargarðsins um að fá að nota klettinn. Sveitarfélagið hafi tekið vel í það, en breyta þarf aðalskipulagi. Það sé mikilvægt að halda íbúum vel upplýstum um hvað standi til. 

Helga segir að upphaflega hugmyndin hafi breyst svolítið á þeim árum sem liðin eru en að þau telji það sem þau hafa í höndunum nú mjög góða hugmynd. 

Ekki liggur enn fyrir hver endanlegur kostnaður verður, næsta skref verði að ræða við Turner um aðkomu, fyrst hafi þurft að tryggja lóð og þegar það er í höfn verði eftirleikurinn auðveldari við hönnun og öflun fjárfesta. 

Helga kveðst sannfærð um að garðurinn verði enn en lyftistöngin fyrir bæinn þegar hann verður tilbúinn eftir tvö til þrjú ár.