Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Um 200 jarðskjálftar á Keilissvæðinu síðasta sólarhring

13.10.2021 - 23:21
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Þór Ægisson - RÚV
Allt hefur verið með heldur kyrrum kjörum á Keilissvæðinu undanfarinn sólarhring. Á tíunda tímanum í kvöld mældust tveir jarðskjálftar af stærðinni 2,3 hvor, tvo kílómetra suðsuðvestur af Keili.

Tvöhundruð jarðskjálftar hafa mælst á svæðinu undanfarinn sólarhringa. Skjálftarnir voru á annað þúsund á sólarhring þegar mest var. Keilir er 379 metra hátt móbergsfjall sem myndaðist á ísöld við gos undir jökli. 

Móberg er algengt á Íslandi og verður við eldgos undir vatni eða jökli þar sem gosopið er nálægt eða rétt undir yfirborðinu. 

Jarðskjálftahrina hófst suðsuðvestur af Keili þann 27. september síðastliðinn og hafa um 10 þúsund skjálftar mælst á svæðinu, þar af átján yfir 3.0 að stærð.

Stærsti skjálftinn mældist af stærðinni 4,2 laugardaginn 2. október klukkan 15:32. Skjálftarnir finnast víða á Reykjanesskaga og á suðvesturhorninu.