Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Þjóð sem standi ekki endilega við loforð

13.10.2021 - 15:24
epa09508990 British Prime Minister Boris Johnson delivers a speech on day four of the Conservative party Conference in Manchester, Britain, 06 October 2021. The Conservative Party conference ends today.  EPA-EFE/NEIL HALL
 Mynd: EPA
Leo Varadkar, viðskiptaráðherra Írlands og fyrrverandi forsætisráðherra, varar ríki við því að gera fríverslunarsamninga við Breta, sem séu þjóð sem „standi ekki endilega við loforð“.

Ummælin koma í kjölfar orða Dominics Cummings, fyrrverandi aðstoðarmanns Boris Johnsons, um að breska stjórnin hafi aldrei ætlað að standa við þær skuldbindingar sem voru gerðar í brexit-samkomulagi Breta og Evrópusambandsins í árslok 2019.

Íhaldsflokkur Boris Johnsons gekk til kosninga árið 2019 með það stefnumál helst að „klára“ brexit. Hélt hann því fram að útgöngusamningurinn væri „frábær“ og „fullbúinn“. Nú vilja Bretar hins vegar breyta samkomulaginu til þess að draga úr hömlum á vöruflutninga milli Norður-Írlands og Stóra-Bretlands.

Ekki ætlað að standa við samkomulag um N-Írland

Málefni Norður-Írlands voru í brennidepli í viðræðum um útgöngu Breta úr sambandinu enda samningsmarkmið Breta þversagnarkennd: að viðhalda frjálsu flæði milli Írlands og Norður-Írlands, milli Norður-Írlands og Stóra-Bretlands, en þó ekki milli Stóra-Bretlands og ESB, sem Írland tilheyrir.

Cummings, sem hefur snúist gegn Johnson eftir að hafa verið rekinn úr forsætisráðuneytinu í fyrra, segir að Boris Johnson hafi aldrei skilið almennilega hvað fólst í útgöngusamningnum fyrr en í nóvember 2020 – mánuði áður en samkomulagið tók gildi.

Bretar gengu að nafninu til úr Evrópusambandinu í janúar 2020 en það var ekki fyrr en í árslok 2020 sem helstu breytingar vegna þessa tóku gildi.

Brexit mikilvægara en alþjóðalög

Cummings hefur farið mikinn á Twitter þar sem hann gefur lítið fyrir að einhliða breytingar á Brexit-samkomulaginu brjóti alþjóðalög.

„Forgangsatriði okkar að klára brexit er 10.000 sinnum mikilvægara en einhverjir lögfræðingar að blaðra um alþjóðalög í viðræðum við fólk sem brýtur alþjóðalög öllum stundum,“ sagði Cummings.

Í viðtali við RTE-sjónvarpsstöðina sagði Varadkar að hann vonaðist til að Cummings væri að tala fyrir eigin hönd en ekki lýsa viðhorfi bresku stjórnarinnar.

„Þessi ummæli eru varhugaverð því þau gefa til kynna að stjórnvöld [í Bretlandi] hafi gengið til samninga á fölskum forsendum. Ef breska stjórnin virðir ekki eigin samkomulag hlýtur það að gilda um önnur samkomulög sömuleiðis,“ sagði Varadkar og nefndi að Bretar færu nú um heiminn í leit að nýjum fríverslunarsamningum.

alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV