„Sortuæxlið er skítadreifari ef það sleppur í gegn“

Mynd: RÚV / RÚV

„Sortuæxlið er skítadreifari ef það sleppur í gegn“

13.10.2021 - 15:08

Höfundar

„Kannski verð ég dáinn áður en árið er liðið,“ segir Sigurbjörn Árni Arngrímsson íþróttalýsandi og skólastjóri sem greindist með fjórða stigs sortuæxli fyrr á þessu ári. Hann sér spaugilegar hliðar á veikindunum og tilverunni en verður stundum dapur. Vonina um að eldast mikið segir hann litla, en hann heldur þó í hana.

Sigurbjörn Árna Arngrímsson skólameistara á Laugum, prófessor við HÍ og HR og sauðfjárbónda þekkja flestir sem ástríðufulla íþróttalýsandann sem hann hefur verið í gegnum tíðina. Hann kíkti í sunnudagssögur á Rás 2 og sagði frá æskunni, ferlinum, draumum sínum og illvíga krabbameininu sem hann glímir við. 

„Finnst margt af því sem ég segi svo vitlaust“

Sigurbjörn á fjögur systkini og var seinn til gangs og máls, en kveðst hafa hætt hvorugu síðan. „Ég get komið ansi mörgum orðum að á mínútu en hlusta ekki oft á mig eftir á,“ segir hann um íþróttalýsingar sínar sem hafa orðið frægar fyrir hve mikil innlifun Sigurbjörns er.

Stundum hefur hann fengið kjánahroll þegar hann hlustar, og finnst hann hljóma kjánalega. „Ég hætti því alveg þegar ég var að lýsa fimm kílómetra löngu hlaupi kvenna fyrir tíu árum síðan og það var taktík, allir keppendur í einum hnapp og tveir hringir eftir. Þá sagði ég: Á þessum hring eða næsta mun einhver taka af skarið og reyna að vinna hlaupið,“ rifjar Sigurbjörn upp og hlær. „Þegar ég hlustaði á þetta hugsaði ég: Já, þið þurftuð sérfræðing í þetta til að átta ykkur á þessu. Svo ég eiginlega hlusta ekki á mig því mér finnst margt af því sem ég segi svo vitlaust að það er ekki nokkru lagi líkt.“

Hefur aldrei nennt að gera ekki neitt

Hann fæddist á sjúkrahúsinu á Húsavík og er alinn upp í Mývatnssveit. Foreldrar hans voru kennarar og bændur en amma hans og afi voru með bú skammt frá. Að afa Sigurbjörns látnum tók faðir hans við búinu og var fjölskyldan þar allar götur síðan.

Hann var ör og virkur sem barn og var alltaf að taka upp á einhverju skemmtilegu. Þannig er hann enn í dag. „Ég hef aldrei nennt að gera ekki neitt. Ég get slakað á eins og hver annar en að gera ekki neitt á ekki alveg við mig,“ segir hann.

Sem barn átti hann sér drauma um að verða íþróttakennari og bóndi en hann langaði líka að komast á Ólympíuleikana. Þegar hann var kominn yfir unglingsárin langaði hann að verða skólastjóri framhaldsskólans á Laugum og landsliðsþjálfari í frjálsum. Þá drauma lét hann rætast um hæl. „Ég var búinn að gera hvort tveggja 2010, þá 37 ára, og ég hugsaði hvort ég hefði sett markið lágt eða hvort maður ætti að setjast í helgan stein. En svo hafði ég alltaf áhuga á að verða kennari og bóndi,“ segir Sigurbjörn sem hefur kennt, starfar sem bóndi og er skólastjóri á Laugum eins og stefnt var að.

Var bestur á landinu í mörg ár en aldrei eins góður og hann vildi

Hann lærði íþróttafræði, fór í meistaranám og var svo boðinn styrkur til að fara í doktorsnám. Hlaupið byrjaði hann að stunda af kappi þegar hann var barn að aldri og Sigurbjörn varð fyrst Íslandsmeistari 12 ára í 800 metra hlaupi. 17 ára var hann kominn í unglingalandsliðið og fór eftir stúdentspróf á íþróttastyrk í Bandaríkjunum. Síðasta Íslandsmeistaratitilinn vann hann 2015 þá 42 ára gamall. Samt náði hann aldrei eins langt og hann vildi. „Ég náði því að verða Íslandsmeistari í öllum hlaupavegalengdum karla, fjórum sinnum 400 upp í hálft maraþon. Varð 40 sinnum Íslandsmeistari og ég setti nokkur Íslandsmet, fór á nokkur heimsmeistaramót, en var allan tímann að reyna að verða betri. Fannst ég ekkert rosalega góður,“ segir Sigurbjörn.

Hann ræddi þá tilfinningu sína við Ólaf Stefánsson handboltakappa eitt sinn og hann svaraði: „Þú varst bestur á landinu í mjög mörg ár. Ég hugsaði: Sennilega var ég betri en mér fannst ég vera þegar ég var að því, en ég var samt ekki í heimsklassa.“

„Ógeðslega vont en ég vann“

Sigurtilfinning segir Sigurbjörn að sé þó engu öðru lík, og hana hefur hann oft upplifað. „Þegar ég var síðast Íslandsmeistari 2015 var ég á leið á heimsmeistaramót öldunga þar sem ég átti góða möguleika á að vera í öðru eða þriðja sæti, og þetta er síðasta mótið fyrir það. Ég er búinn að æfa býsna vel, er búinn að gera sömu upphitun og ég hef alltaf gert en allt í einu finn ég fyrir hnénu og er alveg að drepast en ég fór í hlaupið,“ segir Sigurbjörn sem lét meiðslin ekki stoppa sig. „Það var ógeðslega vont en ég vann.“

Í ljós kom að liðþófi hafði slitnað í hnénu svo hann þurfti að fara í aðgerð sem átti að taka mánuð, en tók heilt ár „því ég eyðilagði svo mikið með því að hætta ekki strax. En mér fannst það algjörlega þess virði, þessi tilfinning að vinna. Hún bara gefur eitthvað,“ segir Sigurbjörn.

Horfir á fólk í kringum sig láta lífið eftir svipaða baráttu

Sigurbjörn glímir við illvígt krabbamein og er ekki feiminn við að tala um það. Hann greindist snemma á þessu ári en síðustu mánuðir hafa verið sérstaklega erfiðir því hann hefur fylgst með fólki í kringum sig láta lífið eftir baráttu við svipuð veikindi, þar af einn mann með sams konar mein og hann sjálfur. „Hann fékk bara sex vikur eftir að hann greindist, þannig að maður veltir fyrir sér: Af hverju ætti ég að sleppa?“ segir Sigurbjörn. „En svo er hinn möguleikinn: Af hverju ekki?“

Þegar hann greindist fyrst segir hann að margir hafi komið að máli við sig til að segja sér árangurssögur af fólki sem læknaðist á undraverðan hátt. Síðar hafi hann verið óþægilega minntur á feigðina og að ekki séu allir svo heppnir. „Núna er þetta svolítið nær og læknirinn var búinn að tala um það við mig að ég myndi taka meira eftir svona. Þegar vinir manns hafa farið og kona sem ég þekkti ágætlega þá fer maður að velta fyrir sér,“ segir Sigurbjörn.

Fær símtöl frá fólki sem spyr hvort hann sé að deyja

Hann fer reglulega í skoðanir og þá er rannsakað hvort lyfjameðferðin sem hann er í beri árangur, hvort meinin í líkamanum minnki eða stækki. Í hvert sinn greinir hann frá niðurstöðunum á Facebook-síðu sinni, nú síðast í vikunni þegar fregnirnar voru nokkuð jákvæðar.

„Ég hef yfirleitt notað samfélagsmiðla meira til að fíflast en eftir að ég greindist hringdi fólk í umvörpum. Þetta voru svona tuttugu mínútna samtöl um daginn og veginn við kannski fólk sem ég hef ekki séð í tuttugu ár, og eftir X langan tíma kemur spurningin: Ertu að deyja?“ Til að fækka þessum símtölum ákvað Sigurbjörn að greina frá stöðunni á miðlunum þar sem fólk gæti fylgst með. „Þú færð fullt af hjörtum og lækum, svo reyni ég að sjá spaugilegu hliðina á þessu öllu.“

„Sortuæxlið er skítadreifari“

Húmorinn reynir Sigurbjörn að hafa alltaf með í för. Faðir hans lést úr krabbameini, það var mikið grínast með honum og Sigurbjörn hefur tileinkað sér þann sið í sínum veikindum. „Ég held þetta sé bara eðlið. Ég var rosalega dapur í fjóra, fimm daga eftir að ég greindist því þetta er eitt versta krabbamein sem maður getur fengið, sortuæxlið er skítadreifari og ef það sleppur í gegn er erfitt að eiga við það,“ segir Sigurbjörn.

Hann segir horfurnar þó mun betri með árunum þó þær séu ekki góðar. „Fyrir sex, sjö árum hefði þetta verið dauðadómur og ég hefði átt bara eitt ár. Kannski verð ég dáinn áður en árið verður liðið, ég veit ekkert um það og líður ekki þannig en það er allavega möguleiki.“

Það hjálpar ekkert að leggjast niður að væla

Nokkrum dögum eftir greiningu fann hann þó geðið lyftast. „Kannski vegna þess að allir sendu góðar hugsanir og strauma í handanheimana. Kannski er einhver að hjálpa mér þaðan ég veit það ekki en einhvern veginn varð ég léttari og get alltaf séð spaugilegu hliðina og hef alltaf gert það,“ segir Sigurbjörn. Hann segir að það hjálpi ekkert að leggjast niður og væla. „Hins vegar ef ég fæ slæma skoðun verð ég pottþétt dapur, það kemur ekkert í veg fyrir það, en ég get örugglega séð spaugilegu hliðina á því að deyja. Ég er eiginlega viss um það.“

„Jói var ekkert neikvæður, hann var bara óheppinn“

Eina leiðin til að lifa svona tíma er að sjá spaugilegu hliðina, ítrekar Sigurbjörn, „því hvað á ég að gera? Líkurnar á að ég verði gamall maður eru mjög mjög litlar,“ segir Sigurbjörn og bætir við að það sé lítil huggun í því fólgin að fólk afneiti því. „Þegar fólk segir við mig: Krabbameinið veit ekki hvern það hitti þarna, ég þekki engan með meira keppnisskap eða þú ert svo jákvæður, hugsa ég: Jói vinur minn dó í sumar og hann var ekkert neikvæður, hann var bara óheppinn.“

Langar að fylgja dóttur sinni inn kirkjugólfið

Fólk geri sér ekki grein fyrir því að líkurnar á að hann sigrist á þessu séu eins litlar og þær eru, samkvæmt Sigurbirni. „Það er bara spurning um hvað ég lifi lengi. Auðvitað er möguleiki að ég sigrist á þessu en ég nenni ekki að útskýra það fyrir fólki,“ segir hann.

Dauðinn hræðir Sigurbjörn ekki beint. „Ég var spurður einu sinni í viðtali hvort ég óttaðist dauðann, og ég bara: Ég hef bara ekki pælt í því! Ég sagði nei, ég held ég óttist ekki það að deyja en það verður vonandi leiðinlegt fyrir þá sem lifa. Ég vona að lífið ykkar verði verra fyrir vikið,“ segir hann og hlær.

Hann langar hins vegar allra síst að deyja, lífið er honum afar dýrmætt og hann vill lifa því eins lengi og unnt er. „Mig langar að fylgja dóttur minni inn kirkjugólfið og þó ég hafi ekkert verið mjög spenntur fyrir að eignast börn sjálfur er ég alveg spenntur fyrir að eignast barnabörn, bara ekki strax, þið eruð of ung,“ segir Sigurbjörn sposkur og beinir orðum til afkvæmanna. „Ég veit ekkert hvort ég verð sextugur en vonandi verð ég fimmtugur. En maður veit það ekki.“

Kominn með líkama miðaldra manns

Sigurbjörn er á líftæknilyfjum og aukaverkanir eru ekki miklar, en hann finnur fyrir aukinni þreytu. Auk þess finnst honum sem hann sé skyndilega fastur í líkama miðaldra manns, sem er tilfinning sem hlaupagarpurinn þekkti alls ekki fyrr. „Sú líðan er bara ömurleg finnst mér. Ég er löngu orðinn miðaldra maður en ég hef aldrei verið í líkama miðaldra manns, minn hefur verið meira í kringum þrítugt,“ segir Sigurbjörn. „Allt í einu á hálfu ári verð ég móður ef ég labba upp brekku. Líður venjulegu fólki svona? Hvernig nennið þið því?“ Hann hvetur þá sem geta til að koma sér í form til að líða betur. „Mér finnst þetta algjör skelfing.“

Besta heilunin að knúsa lítil lömb

Sigurbjörn hyggst halda áfram starfi sínu sem skólastjóri en það er nóg um að vera í sauðfjárræktinni. Hvergi slakar hann eins vel á og í fjárhúsinu þegar hann hefur gefið rollunum á garðann. „Þá þagnar allt og þú leggst, þær eru að borða í kringum þig og það er alveg dauðaþögn að öðru leyti. Það er heilun og afslöppun,“ segir hann. Ekki þykir honum síður heilandi að knúsa lömbin. „Það er oft talað um það á elliheimilum að vera með hunda og ketti en sá sem knúsar lömb, þú verður ekkert í vondu skapi. Það kemur öllum í gott skap. Lömb eru yndisleg,“ segir hann að lokum.

Gígja Hólmgeirsdóttir ræddi við Sigurbjörn Árna Arngrímsson í Sunnudagssögum á Rás 2. Hér er hægt að hlýða á viðtalið í heild sinni í spilara RÚV.