Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Skjálftavirkni víða á landinu í dag

13.10.2021 - 16:59
Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson - RÚV
Þrír jarðskjálftar mældust við Herðubreiðarfjöll norðan við Öskju um áttaleytið í morgun, sá stærsti 2,6 að stærð. Einar Hjörleifsson, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir fremur sjaldgæft að skjálftar mælist á því svæði.

Undanfarna tvo sólarhringa hafa mælst tugir skjálfta við Herðubreiðartögl og nokkrir við Öskju. Einar segir að í nú hafi GPS-mælum verið fjölgað í grennd við Öskju og vefmyndavélum komið fyrir. Því megi búast við skýrari gögnum um landris á næstu dögum.

Skjálftahrinan suðvestan við Keili er enn í rénun en þar hafa mælst um 210 skjálftar á síðasta sólarhringnum. Sá stærsti varð í nótt, þrír að stærð, og Veðurstofunni bárust engar tilkynningar um að hann hefði fundist. 

Um þrjátíu jarðskjálftar mældust á Reykjanesskaga í nótt. Upptök skjálftanna voru um fimm til átta kílómetrum vestur af Reykjanestá. Að sögn náttúruvársérfræðings eru skjálftarnir hefðbundnar jarðskorpuhreyfingar en tengjast ekki með beinum hætti eldgosinu í Fagradalsfjalli eða hrinunni við Keili. Þeir stærstu riðu yfir á tólfta tímanum og voru 3,2 og 3,3 að stærð. Eftirskjálftar mældust fram undir morgun og er ekki víst að hrinunni sé lokið.