Sex landsliðsmenn sakaðir um ofbeldis- og kynferðisbrot

Mynd með færslu
 Mynd: Knattspyrnusamband Íslands

Sex landsliðsmenn sakaðir um ofbeldis- og kynferðisbrot

13.10.2021 - 05:31
Sex leikmenn íslenska karlalandsliðsins í fótbolta hafa verið sakaðir um ofbeldis- og/eða kynferðisbrot og leika ekki með liðinu á meðan mál þeirra eru í skoðun. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

Þar segir að stjórn Knattspyrnusambands Íslands hafi borist tölvupóstur frá aðgerðahópnum Öfgum, hinn 27. september, sem samkvæmt heimildum blaðsins innihélt nöfn sex leikmanna landsliðsins og dagsetningar meintra ofbeldis- og kynferðisbrota þeirra.

Var tölvupósturinn tekinn fyrir á fundi stjórnar sambandsins 30. september og farið með hann sem trúnaðarmál. Daginn eftir kynnti Arnar Þór Viðarsson þjálfari lið Íslands sem lék leikina tvo 8. og 11. október, gegn Armeníu og Liechtenstein. Fullyrt er að hann hafi ekki getað valið alla þá leikmenn sem hann ætlaði sér, vegna þessa máls.

Þrír nefndir til sögunnar sem ekki hafa áður verið ásakaðir

Þrír landsliðsmenn sem ásakaðir hafa verið um kynferðisbrot hafa þegar verið nafngreindir í fjölmiðlum en hinir þrír, sem sagðir eru til umfjöllunar í tölvupóstinum, hafa ekki verið nafngreindir. Þeir eru allir sagðir hafa verið fastamenn í íslenska fótboltalandsliðinu um árabil og eiga fjölda A-landsleikja að baki.

Í frétt Morgunblaðsins segir að mál þeirra séu nú til skoðunar hjá Sigurbjörgu Sigurpálsdóttur, samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs ÍSÍ. Og á meðan á þeirri skoðun stendur, segja heimildir Morgunblaðsins, eru þeir ekki gjaldgengir í landsliðið. 

 

Tengdar fréttir

Íslenski fótboltinn

Vanda: „Við ætlum að laga þetta“

Fótbolti

Eigi ekki að vera í landsliði ef mál eru til skoðunar