Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Segir ekki öllu skipta á hvað sé horft heldur hve lengi

Mynd: RÚV / RÚV
Sálfræðingur segir ekki skipta öllu máli hvað börn horfa á heldur hve löngum tíma þau verji í áhorfið. Yfir 100 milljónir hafa séð suðurkóreska þáttinn Squid Game á streymisveitunni Netflix á aðeins öráum vikur.

Þátturinn er vinsælasta sjónvarpsefnið í 80 löndum, afar blóðugur og ofbeldisfullur en mikið æði hefur gripið um sig á samfélagsmiðlum kringum þáttinn. 

Ekkert verra en annað svipað efni

Steinunn Anna Sigurjónsdóttir barnasálfræðingur segist hafa séð einn og hálfan þátt og segir innihald þeirra ekkert verra en annað sem í boði er, og hefur hið sama eftir ungum viðmælendum sínum.

Hún segir engar rannsóknir sýna eða sanna skýr tengsl milli ofbeldisfullrar hegðunar barna og áhorfs á ofbeldisefni eða spilun þannig leikja. Hún segir þó einhverjar rannsóknir sýna tengsl þess að börn sem horfi á ofbeldisefni reynist vera ofbeldisfyllri.

Einn möguleiki geti verið að þau sem beiti ofbeldi sæki líka í að horfa á það.

„Annar möguleiki getur verið að það snúist ekki hvað þú ert að horfa á heldur meira ef að börn verja rosalega miklum tíma í tölvum, síma og áhorf á sjónvarpsefni geti þau orðið minna næm fyrir ofbeldisfullu efni.“ Sá tími nýtist þá ekki í annað.

„Þessi tími sem fer í þetta fer ekki í að ná tökum á skóla, leika við vini, umgangast fólk á öllum aldri, komast í snertingu við ólík sjónarhorn. Við erum að þróa og þroska með okkur samkennd  og siðferðiskennd á uppvaxtarárunum.“

Arnar Eggert Thoroddsen, aðjúnkt í félagsfræði við Háskóla Íslands, segir Netflix hafa lagt talsverða áherslu á suðurkóreskt efni undanfarið og að jafnhliða þáttunum sé framleiddur margvíslegur varningur.

Hann segir mikið áhorf geta skýrst af gríðarlegri umfjöllun um þættina á samfélagsmiðlum á borð við TikTok. 

Börn gera greinarmun á ævintýri og raunveruleika

Steinunn segir að ef börn ná góðum tökum á félagslegum aðstæðum, ef þau hafa gott bakland og upplifa að þau nái árangri í lífinu geri þau greinarmun á hvað er ævintýri, sjónvarp og raunheimar.

Hún segir að þættina geta aukið myrkfælni hjá sumum börnum líkt og annað efni í samtíð og fortíð. Þau börn sem finnst svona efni óþægilegt velja að horfa ekki á það, það geri frekar þau sem eru með sæki í æsinginn.

Mikilvægt sé að styrkja alla félagslega þætti og gæta þess að þættirnir taki ekki of mikinn tíma frá börnunum. Áríðandi sé fyrir börn að hafa samskipti við fólk á öllum aldri, ekki bara jafnaldrana. 

Steinunn segir börn samtímans telja heiminn hættulegri en hann var fyrir einhverjum árum eða áratugum en benti á að öryggi væri alltaf að aukast.

Arnar Eggert segir börn skilja muninn milli raunveruleika og ævintýraheims, en erfitt sé fyrir foreldra að fylgjast með neyslu barnanna sinna þegar tölvan þeirra er uppi í herbergi.

Hann velti einnig fyrir sér vinsældum ýmis konar keppnisþátta af mörgu tagi, sem væri í raun grunnhugmyndin í Squid Game sem hann benti á að væru vel gerðir þættir.

„Afþreying er endurspeglun á gildum samfélagsins. Mér finnst merkilegt að í þessum þáttum er verið að gagnrýna að við erum öll þrælar kapítalismans en er á sama tíma græða framleiðendurnir mikla peninga með sölu á ýmsum varningi.“    

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV