Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

RS-veira og inflúensa gætu sett strik í reikninginn

13.10.2021 - 15:45
Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RUV
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir hugsanlegt að RS-veira og inflúensa setji strik í reikninginn við afléttingar á sóttvarnatakmörkunum. Hann vill að áfram verði takmarkanir rýmkaðar smám saman og segir mikilvægt að draga lærdóm af bakslaginu sem varð í kjölfar hraðra afléttinga í sumar.

„Við þurfum að hugsa það að við erum að fara inn í vetur núna og við megum búast við meiri sýkingum en áður. Í fyrra sáum við ekkert af RS, faraldri sem kemur á hverjum vetri, og við sáum ekki inflúensuna, sennilega vegna þeirra takmarkana sem voru í gangi,“ segir hann.

RS-veiran hafi verið alvarlegur faraldur hjá börnum bæði í Danmörku og í Svíþjóð um þessar mundir. „Við þurfum að sjá hvað gerist hér,“ segir Þórólfur. „Svo eru menn að spá því jafnvel að inflúensan geti orðið alvarlegri en áður, af því að hún gekk ekki í fyrra. Og við þurfum að hafa það í huga þegar við erum að hugsa um að vernda heilbrigðiskerfið,“ bætir Þórólfur við. Langtímamarkmiðið sé tvímælalaust að hér á landi verði engar sóttvarnatakmarkanir. 

Byrjað verður að bólusetja gegn inflúensu hér á landi á allra næstu dögum. Stefnt er að því að heilsugæslustöðvar, heilbrigðisstofnanir og hjúkrunarheimili fái bóluefnið á föstudag og byrji að bólusetja forgangshópa.