Rannsaka þarf skriðuhættu við ellefu þéttbýlisstaði

13.10.2021 - 06:33
Mynd með færslu
Aurskriðurnar á Seyðisfirði í desember hrundu af stað vinnu við könnun á aurskriðuhættu Mynd: Þór Ægisson
Hópur vísindamanna á Veðurstofu Íslands, Náttúrufræðistofnun Íslands og Háskóla Íslands telur nauðsynlegt að gera svipað átak vegna aukinnar hættu á skriðuföllum og gert var vegna snjóflóðahættu á tíunda áratugnum. Nefnir hópurinn sérstaklega ellefu þéttbýlisstaði sem kanna þarf með tilliti til hættu á aurskriðum. Þar á meðal eru Ísafjörður, Sauðárkrókur, Akureyri og Neskaupstaður.

Þetta kemur fram í  minnisblaði sem hópurinn vann fyrir starfshóp umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, sem var kallaður saman eftir aurskriðurnar miklu á Seyðisfirði í desember síðastliðnum. Geipilegt tjón varð á mannvirkjum í þeim skriðuföllum og þykir ganga kraftaverki næst að engan sakaði.

Fréttablaðið greinir frá og hefur eftir Tómasi Jóhannessyni, ofanflóðasérfræðingi á Veðurstofunni, að kanna þurfi landform ofan við ellefu þéttbýlisstaði með tillitli til hreyfingar á lausum jarðefnum. Komi hreyfingar á jarðvegi í ljós gefi það tilefni til aukinnar árvekni. Auk fyrrnefndra þéttbýilisstaða nefna vísindamennirnir Suðureyri, Bíldudal, Patreksfjörð, Bolungarvík, Siglufjörð, Eskifjörð og Fáskrúðsfjörð til sögunnar í þessu sambandi.