Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Opna fyrir umferð bólusettra frá Kanada og Mexíkó

epa05821969 A United States Border Patrol (USBP) agent vehicle sits next to a wall and fence along the Rio Grande River on the United States side near McAllen, Texas, USA, 28 February 2017. The nearly two thousand mile Mexico-United States border is the
Landamærastöð við Rio Grande í Texas. Landamæri Bandaríkjanna að Mexíkó og Kanada hafa verið lokuð frá því í mars 2020 en í nóvember verður breyting þar á. Mynd: EPA
Opnað verður fyrir umferð fullbólusetts fólks til Bandaríkjanna frá Kanada og Mexíkó í byrjun næsta mánaðar. Þetta hefur Reutersfréttastofan eftir háttsettum en ónafngreindum aðilum innan bandarísku stjórnsýslunnar. Þar með lýkur langri og sögulegri lokun landamæranna sem gripið var til í mars 2020, í því skyni að draga úr útbreiðslu heimsfaraldurs kórónaveirunnar.

Fullyrt er að Alejandro Mayorkas, ráðherra heimavarnarmála, tilkynni þetta formlega síðar í dag. Nýju reglurnar gilda jafnt um ferðalög á landi og á sjó. Þær eru sagðar mjög svipaðar en þó ekki alveg samhljóða þeim reglum sem tilkynntar voru í síðasta mánuði og munu gilda um fullbólusetta ferðalanga sem koma flugleiðina til Bandaríkjanna frá 33 enn fjarlægari löndum, þar á meðal EES-ríkjum og Kína.

Áfram heimilt að vísa hælisleitendum frá án málsmeðferðar

Heimildarmennirnir lögðu áherslu á að stjórn Bidens hygðist ekki afnema afar umdeilda tilskipun forvera hans, Donalds Trumps, sem heimilar stjórnvöldum að vísa hælisleitendum úr landi þúsundum saman án þess að taka hælisbeiðni þeirra til skoðunar.

Sú heimild er rökstudd með vísan í grein í heilbrigðislöggjöf landsins, sem gagnrýnendur segja misnotaða til að brjóta gegn réttindum flóttafólks og hælisleitenda.

Kanadísk stjórnvöld opnuðu fyrir umferð fullbólusettra Bandaríkjamanna til Kanada hinn 9. ágúst.