„Okkur langaði bara í sushi“

Mynd: Magnús Atli Magnússon / RÚV/Landinn

„Okkur langaði bara í sushi“

13.10.2021 - 07:50

Höfundar

„Okkur langaði bara í sushi upphaflega. Vorum samt alltaf með tenginguna við fiskinn, þegar maður er í fiskibær þá er fiskurinn svo nærtækur,“ segir Davíð Kristinsson, einn eigenda Norð Austur, Sushi-staðar á Seyðisfirði.

Landinn kom við á Norð Austur einn síðsumardag en staðurinn er á annarri hæð Hótels Öldunnar, mitt í annríki bæjarins og hefur verið starfræktur á Seyðfirskum sumrum síðan 2015.

„Við ákváðum að nýta efri hæðina hérna á Hótel Öldunni og fórum bara að kynna okkur hvort þetta væri ekki besta hugmynd sem við gætum fengið og við komust að því að þetta var það.“

Eigendurnir leituðu út fyrir landsteinana að sushi-kokkum enda segir Davíð að grunnurinn að góðum veitingastað sé lagður með góðum kokkum.

„Við lögðum upp með eitthvað og þeir fóru með það hærra en við og það er það sem er mest spennandi við þetta hjá okkur - og þeir hætta aldrei að koma okkur á óvart.“