Nýtt rannsóknasetur á sviði umhverfisvísinda við Mývatn

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Hafinn er undirbúningur að stofnun rannsóknaseturs í Mývatnssveit á vegum Háskóla Íslands og menningar- og náttúrusetursins í Svartárkoti. Háskólarektor segir þetta góða viðbót við rannsóknasetur Háskólans víða um landið.

Það voru fulltrúar Háskóla Íslands, Svartárkots - menningar og náttúru, Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar sem undirrituðu í gær viljayfirlýsingu um stofnun rannsóknaseturs á sviði umhverfishugvísinda í Mývatnssveit.

Fleiri stofnanir undir sama þaki

Á næstu mánuðum verður unnið að fjármögnun og öðrum undirbúningi í húsnæði sem Ríkiseignir keyptu við Mývatn fyrr á þessu ári. Þar eru einnig til húsa fjórar stofnanir á sviði umhverfismála; Vatnajökulsþjóðgarður, Umhverfisstofnun, Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn og Landgræðslan. 

Rannsóknasetur í góðu samstarfi við heimamenn

„Við erum með rannsóknasetur víða um landið, við erum með tíu rannsóknasetur sem stendur. Þau eru alltaf í góðu samstarfið við heimamenn og að frumkvæði heimamanna oft. Það er það sem gerðist hér,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands. Umhverfisvísindi verði innlegg skólans í fyrstu, en hann segir aðstæður við Mývatn sérlega góðar til rannsókna og tækifærin víða.

„Vilji okkar er skýr“

Umfang starfseminnar ráðist nokkuð af stuðningi stjórnvalda og fjármagni, en þarna sé gert ráð fyrir að verði starfsfólk á vegum Háskólans auk þess sem nemendur geti dvalið þar tímabundið í sínu námi.  „En vilji okkar er skýr og við hyggjumst þá vera hér með starfsemi. Að standa hér úti á pallinum á þessum frábæra stað, með þessa glæsilegu starfsemi sem er hér í grenndinni. Ég sé ekki annað en þetta verði eitthvað sem komi mjög mikið út úr,“ segir Jón Atli.