Lögregla spurð um myndefnið frá hótelinu í Borgarnesi

Mynd með færslu
 Mynd: Alma Ómarsdóttir - RÚV
Undirbúningsnefnd Alþingis fyrir rannsókn kjörbréfa sendir í dag spurningar til lögreglunnar á Norðvesturlandi þar sem meðal annars verður óskað eftir upplýsingum um hvað sést á eftirlitsmyndavélunum sem voru við talningasalinn á Hótel Borgarnesi og hvort ástæða sé fyrir nefndina að skoða myndefnið.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu verður lögreglan einnig spurð um atriði sem gætu hafa komið fram við rannsókn hennar og skipt máli fyrir vinnu nefndarinnar.

Myndefnið úr eftirlitsmyndavélum og hvernig þær snúa  gæti átt eftir að reynast mikilvægt fyrir vinnu nefndarinnar.

Athugasemdir hafa verið gerðir við hvernig öryggi kjörgagna voru tryggð þegar yfirkjörstjórn gerði hlé á störfum sínum um morguninn.  Talningarsalnum var læst en hann var ekki innsiglaður. Í bókun landskjörstjórnar eftir kosningar kom fram að ekki hefði fengist staðfest frá yfirkjörstjórn á Norðvesturlandi að meðferð kjörgagna hefði verið fullnægjandi.

Í greinargerð Inga Tryggvasonar, formanns yfirkjörstjórnar Norðvesturkjördæmis, til landskjörstjórnar kom fram að öryggismyndavélarnar sýndu innganginn í salinn þar sem talning fór fram.  „Ég hef ekki skoðað þær en væntanlega hef ég ekki heimild til þess vegna sjónarmiða um persónuvernd.“  

Haft var eftir Birgir Ármannsson formaður nefndarinnar í hádegisfréttum RÚV að óskað yrði eftir við lögregluna á Vesturlandi að fá eins miklar upplýsingar og unnt er, um niðurstöðu rannsóknar lögreglunnar á kæru Karls Gauta Hjaltasonar fyrrverandi þingmanns Miðflokksins.

Lögreglan hefur lokið rannsókn og er málið í höndum ákærusviðs. Birgir segir nefndina enn í gagnaöflun þannig að enn sé nokkuð í að hún ljúki störfum. Alls hafa ellefu kært talninguna á Norðvesturlandi, meðal annars þeir fimm frambjóðendur sem misstu jöfnunarsæti sitt eftir endurtalninguna. 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV