Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Íbúar á Hlíð í öðru sæti í alþjóðlegri hjólreiðakeppni

13.10.2021 - 08:58
Mynd með færslu
 Mynd: Ásta Þorsteinsdóttir - Rúv
Íbúar á dvalarheimilinu Hlíð á Akureyri lentu í 2. sæti í alþjóðlegri hjólreiðakeppni sem haldin var í september. Vistmenn voru mjög metnaðarfullir og sumir hjóluðu oft á dag.

Besti árangurinn til þessa

Hjólreiðakeppnin er haldin ár hvert og er á milli hjúkrunarheimila um heim allan. Í ár tóku yfir 200 lið þátt með um 5000 þátttakendum frá 11 löndum.

Þetta er í fjórða skiptið sem Hlíð tekur þátt og besti árangurinn hingað til. Ásta Þorsteinsdóttir sjúkraþjálfari á Hlíð heldur utan um verkefnið. „Við höfum verið í þriðja, fjórða og fimmta sæti áður en núna lentum við í öðru sæti.“

Mynd með færslu
 Mynd: Ásta Þorsteinsdóttir - Rúv
Hér eru þrír þátttakendur að hjóla

Liðsheildin einna mikilvægust

Ásta útskýrir þennan góða árangur ár eftir ár á hinum mikla og góða liðsanda og liðsheild sem var á meðal þátttakenda. Hún segir að mikill metnaður hafi verið meðal þeirra rúmlega 60 liðsmanna frá Hlíð sem tóku þátt og voru hjólin í stanslausri notkun frá 8 á morgnana til 5 á daginn.

Liðið hjólaði samtals tæpa 12.000 kílómetra á þeim fjórum vikum sem keppnin stóð yfir.  Hjólin fimm sem hægt var að nota voru umsetin. „Það þurfti alveg að skipuleggja það þannig að allir gætu hjólað eins og þeir vildu því það voru margir sem vildu koma oft á dag,“ segir Ásta.

Ásta segir að hjólreiðakapparnir á Hlíð muni að sjálfsögðu koma sterkir til leiks að ári og ef til vill hreppa fyrsta sætið.

Anna Þorbjörg Jónasdóttir