Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hugur Solberg er hjá hinum látnu og aðstandendum þeirra

13.10.2021 - 22:41
Mynd: EPA-EFE / NTB
Ernu Solberg fráfarandi forsætisráðherra Noregs er afar brugðið eftir að fimm féllu og tveir særðust í árás bogamanns í bænum Kongsberg í suðausturhluta landsins í dag. Solberg segir hug sinn vera hjá hinum látnu og aðstandendum þeirra. Árásarmaðurinn er í haldi lögreglu.

Annar hinna særðu er lögreglumaður en hann var ekki á vakt þegar hann varð fyrir ör úr boga árásarmannsins. Báðir hinna særðu liggja á sjúkrahúsi en eru ekki taldir í lífshættu. 

Solberg flutti ávarp í kvöld þar sem hún lagði áherslu á að lögregla hefði náð hinum grunaða en að mikilvægt væri að hafa í huga að enn væri margt á huldu.

Of snemmt væri að segja nokkuð um hvaða hvatir lágu að baki árásinni en að lögregla útiloki ekki hryðjuverk. Erna Solberg sagði fréttirnar frá Kongsberg ógnvænlegar, ofbeldismaðurinn hafi valdið einstaklingum ómældu tjóni og samfélaginu öllu.

Øyvind Aas, lögreglustjóri í Kongsberg segir allt útlit fyrir að árásarmaðurinn hafi verið einn á ferð. Martin Bernsen, talsmaður norsku öryggislögreglunnar, segir enn á allt huldu um ástæður árásarinnar aðspurður hvort hún gæti talist vera hryðjuverk.

Maðurinn var fluttur í járnum til Drammen þar sem hann bíður yfirheyrslu. Bernsen lét ekkert uppi um hver maðurinn væri, eða hvort hann hefði komið við sögu lögreglu áður. 

Solberg sagðist jafnframt skilja vel að fólk væri óttaslegið en áréttaði að lögregla hefði vald á aðstæðunum. Nú tæki við ítarleg rannsókn á hvað gerðist og hvers vegna.  

Solberg baðst lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt á ríkisráðsfundi í Ósló í gær. Stefnt er að því að ný ríkisstjórn Jonasar Gahr Store taki við á morgun, fimmtudag.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV