Danir hætta að ráða fólki frá ferðalögum

13.10.2021 - 16:38
epa07528907 A flight information board shows cancelled flights during a pilots strike at Copenhagen Airport in Kastrup, Denmark, 26 April 2019. Danish pilots of Scandinavian Airlines (SAS) have gone on strike after not reaching an agreement with their company on wages and working hours. The airline said it had to cancel some 673 flights affecting over 72,000 passengers.  EPA-EFE/Philip Davali DENMARK OUT
 Mynd: EPA
Mikill meirihluti danska þingsins samþykkti í gær að utanríkisráðuneyti landsins skyldi ekki lengur gefa út ferðaráðleggingar um einstök lönd byggt á stöðu kórónuveirufaraldursins.

Í Danmörku, líkt og víða annars staðar, hafa stjórnvöld flokkað lönd í áhættuhópa byggt á stöðu faraldursins og ráðið borgurum frá ferðalögum til landa þar sem útbreiðslan er mikil. Þannig var Ísland appelsínugult á nýjasta korti stjórnvalda, sem fól í sér að áhættan væri svo mikil að fólk ætti að halda sig fjarri landinu nema brýna nauðsyn bæri.

Þessi flokkun hafði enga lagalega þýðingu því bólusettum er frjálst að ferðast til Danmerkur án nokkurra takmarkana.

Engu að síður fagnar dönsk ferðaþjónusta ákvörðuninni og þar ráða menn sér vart af gleði, ef marka má Mikkel Hansen, upplýsingafulltrúa ferðaskrifstofunnar TUI í Danmörku.

„Við væntum þess að fleiri Danir treysti sér til að bóka vetrarfrí eftir þessi skilaboð stjórnvalda.“ Hann vonar bara að fyrirtækið geti haldið í við eftirspurn. „Margir viðskiptavinir hafa litið á þennan appelsínugula lit sem hættulegan, jafnvel þótt fullbólusettir hafi vel getað ferðast þangað.“

Utanríkisráðuneyti Danmerkur mun eftir sem áður gefa út ferðaráðleggingar til einstakra ríkja, en þær munu nú aftur byggja á hefðbundnum áhættuþáttum svo sem hættu á stríði, uppreisn, hryðjuverkum eða útbreiðslu staðbundinna sjúkdóma.

Öllum samkomutakmörkunum innanlands var aflétt í Danmörku 10. september, án þess að tilfellum hafi fjölgað síðan þá. Um 600 tilfelli veirunnar hafa greinst á degi hverjum síðustu viku, sem er álíka og á Íslandi sé miðað við höfðatölu.

alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV