Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Breyttu baðherbergi í tvíbýli á hjúkrunarheimili

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Stjórnvöld vilja fjölga rýmum á hjúkrunarheimilunum sem fyrir eru á suðvesturhorninu til þess að létta álagi af Landspítala svo unnt sé að slaka á sóttvarnaaðgerðum. Tvö tvíbýli hafa verið gerð á Droplaugarstöðum til að svara kallinu. Flest hjúkrunarheimili hafa þó hafnað beiðni um að setja fleiri en einn íbúa í hvert herbergi. 

Í minnisblaði forsætisráðherra og heilbrigðisráðherra til ríkisstjórnarinnar sem fréttastofa fékk í hendur í gær, kemur fram að til þess að heilbrigðiskerfið geti betur átt við afleiðingar hugsanlegrar fjölgunar kórónuveirusmita í kjölfar afléttingar sóttvarnaaðgerða, verði legurýmum á heilbrigðisstofnunum og hjúkrunarheimilum fjölgað tímabundið.

Jórunn Frímannsdóttir, forstöðumaður á Droplaugarstöðum, segir að brugðist hafi verið verið ákalli stjórnvalda um að fjölga rýmum. 

„Við gátum boðið hér tvö rými sem eru í rauninni jafnstór og einbýlin hjá okkur og buðum þau sem tvíbýli í þessu ástandi. Það er búið að breyta þeim og gera klár. Hingað eru komnir fjórir einstaklingar frá Landspítala til þess að bregðast við ástandinu,“ segir Jórunn.

Hvar funduð þið pláss fyrir þessi tvö tvíbýli?

„Þannig var að við vorum með gömul baðherbergi með baðkörum sem aldrei voru notuð og höfðu verið aftengd fyrir löngu síðan. Þau voru notuð sem geymslur,“ segir Jórunn. 

„Til framtíðar verða þetta einbýli og þetta er bara skammtímalausn enda tvíbýli ekki það sem við viljum,“ segir Jórunn. Samningur um rýmin gildir til áramóta en unnt er að framlengja hann fram í febrúar. 

Tvíbýli afturför um áratugi 

Gísli Páll Pálsson, forstjóri Grunarheimilanna, segir að einnig hafi verið haft samband við hann. Sömu sögu segja forstjórar á Hrafnistu og Skjóli og Eir. Þeir vilja að íbúar fái að búa einir í herbergi og neita að fjölga í herbergjum.  

„Nei, alls ekki. Við værum þá að stökkva marga áratugi aftur í tímann. Við erum búin að vinna að þessu í 20-30 ár á þessum stóru eldri heimilum eins og Grund, Hrafnistu og Skjól og Eir að fækka tvíbýlunum eða fjölbýlunum og gefa öllum kost á að vera í einbýli. Það er það sem nútíminn kallar á og það er það sem við eigum að bjóða okkar fólki upp á, ekki fjölbýli. Við eigum að fara í þá átt að fækka þeim ekki fjölga þeim,“ segir Gísli Páll. 

En af hverju tvíbýli á Droplaugarstöðum?

„Þetta er bara til þess að bregaðst við ástandinu og hjálpa Landspítalanum. En fólkið er þakklátt. Þeir sem eru komnir hérna eru mjög þakklátir. Það er svo mikill munur jafnvel þótt þetta sé tvíbýli, að komast í skjól þar sem þú hefur alla vega herbergi og hefur athvarf en ert ekki á gangi, eins og ástandið hefur verið á Landspítala. Bara óboðlegt oft á tíðum,“ segir Jórunn.